Stórt húsnæði, íþróttahús og sundlaug brátt til sölu

hallormsstadarskoli mai13Bæjarráð Fljótsdalshéraðs samþykkti á fundi sínum fyrr í vikunni að húsnæði Hallormsstaðarskóla verði auglýst til sölu. Að sögn formanns bæjarráðs Fljótsdalshéraðs voru viðræður við Skógrækt Ríkisins um að hefja starfsemi í húsnæðinu, en ekkert kom út úr þeim.

Fljótdalshérað og Fljótsdalshreppur, sem ráku grunnskólann og leikskólann á Hallormsstað í sameiningu, tóku ákvörðun fyrr í vetur um að leggja niður skólastarf á Hallormsstað frá og með næsta vetri.

Eftir að sú ákvörðun var tekin var stofnaður starfshópur um framtíðarnýtingu húsnæðisins. Niðurstaða hópsins var að best væri að auglýsa húsnæði skólans til sölu, en auk skólabyggingarinnar er um að ræða íþróttahús og sundlaug.

„Það var búið að kanna aðra möguleika, sem gengu síðan ekki upp,“ sagði Gunnar Jónsson formaður bæjarráðs Fljótsdalshérað í samtali við Austurfrétt. Þar vísar Gunnar til þreifinga sem voru í gangi á milli starfshópsins og Skógræktar Ríkisins, um að byggðar yrðu upp nýjar höfuðstöðvar skógræktar á landinu á Hallormsstað, með möguleika á starfsemi fræðaseturs og upplýsingamiðstöðvar um skógrækt á Íslandi.

„Ef slík starfsemi á einhversstaðar heima, þá er það á Hallormsstað,“ segir Gunnar og telur líklegt að margir deili þeirri skoðun með honum. Hann segir sveitarfélagið nú leggja upp með að auglýsa húsið til sölu til að sjá hvaða aðilar hefðu mögulega áhuga á að nýta húsnæðið.

Gunnar segir að bæjaryfirvöldum standi ekki á sama um hverjum húsnæðið verði selt. „Húsnæðið verður ekki endilega selt hæstbjóðanda heldur skiptir einnig máli hverskonar starfsemi er fyrirhuguð. Við viljum sjá sem mesta atvinnu þarna, þannig að það geti eflt Hallormsstað, aukið þar byggð og fleira.“

„Við tökum fagnandi öllum hugmyndum um nýtingu húsnæðisins,“ segir Gunnar. Versti kosturinn í stöðunni væri sá að húsnæðið stæði autt um lengri tíma. „Það er ekki góður kostur fyrir sveitarfélögin að vera með húsið án notkunar, það er það síðasta sem við viljum.“

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.