Segja gullið tækifæri til stuðnings við fyrirtæki í heimabyggð hafa farið forgörðum

egilsstadir 03072013 0001 webÍ bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs var á dögunum samþykkt að ganga til samninga við hugbúnaðarfyrirtækið Stefnu um gerð nýrrar heimasíðu fyrir Fljótsdalshérað. Þó var ekki einhugur um málið innan bæjarstjórnar og þrír fulltrúar minnihlutans greiddu atkvæði á móti.

Vilji minnihlutans var að semja við sprotafyrirtækið AN Lausnir á Egilsstöðum. Í bókun sem Stefán Bogi Sveinsson lagði fram fyrir hönd B-listans segir að tilboð AN Lausna hafi verið lægra og þrátt fyrir að munur á tilboði þeirra og Stefnu geri samanburð örðugan, sé það mat minnihlutans að á grundvelli þess hefði verið unnt að ná hagstæðum samningum.

Einnig segir í bókuninni að með samningum við Stefnu sé búið að festa sveitarfélagið í viðskiptum við það fyrirtæki um allar lausnir tengdum heimasíðunni. Þá sé það stefna B-listans að mikilvægt sé að sveitarfélagið kaupi þjónustu í heimabyggð þegar hún er í boði á sambærilegum kjörum og annarsstaðar og styðji þannig við uppbyggingu á fjölbreyttri atvinnustarfsemi á svæðinu. Með þessari ákvörðun sé sveitarfélagið að missa af gullnu tækifæri til að sýna stuðning sinn við efnilegt sprotafyrirtæki á staðnum í verki.

Gunnar Jónsson, formaður bæjarráðs, lagði fram bókun fyrir hönd meirihlutans þar sem segir að við mat á því hvaða leið yrði farin við endurnýjun heimasíðunnar hafi verið horft til ýmissa þátta. Þeir þættir voru m.a. verð, reynsla af heimasíðugerð fyrir sveitarfélög, hvernig staðið yrði að þróunarstarfi, samlegð með heimasíðum undirstofnana og möguleg áhrif á starfsumhverfi starfsmanna. Að öllum þessum þáttum skoðuðum hafi það verið niðurstaða meirihluta bæjarráðs að samningur við Stefnu væri líklegri en aðrir valkostir til að uppfylla þær kröfur sem gerðar væru til verkefnisins.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.