Miðbæjartorgið gert að Sólveigartorgi: Megum aldrei sofna á verðinum í jafnréttisbaráttunni

solveigartorg 0062 webMiðbæjartorgið á Seyðisfirði var nefnt Sólveigartorg á almennum hátíðarfundi sem haldinn var þar á föstudag í tilefni af 100 ára kosningarétti kvenna. Forseti bæjarstjórnar minnti á að áfanginn hefði náðst með dugnaði og elju karla sem kvenna.

Torgið er nefnt eftir Sólveigu Jónsdóttur sem árið 1910 varð fyrsta konan í bæjarstjórn Seyðisfjarðar og reyndar á Austurlandi öllu.

Arnbjörg Sveinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Seyðisfjarðar, segir að bæjarstjórnin, sem er að meirihluta skipuð konum, hafi talið við hæfi að minnast Sólveigar við þessi tímamót.

Hún sagði daginn ævarandi minningu um merkan áfanga í jafnréttisbaráttunni en hann hefði ekki náðst áreynslulaust frekar en aðrir áfangar í jafnréttisbaráttunni.

„Þau skref hafa náðst fyrir elju og dugnað réttsýns fólks af báðum kynjum. Þess vegna er svo mikilvægt að halda upp á 19. júní til að minna okkur á að við megum aldrei sofna á verðinum."

Sólveig var fædd árið 1884 á Arnarvatni í Skútustaðahreppi, dóttir Jóns Jónssonar frá Múla og Valgerðar Jónsdóttur og er þar með föðursystur Jóns Múla og Jónasar Árnasonar.

Fjölskyldan flutti til Seyðisfjarðar árið 1899 en Jón var fimm árum síðar kjörinn á þing fyrir Seyðfirðinga.

Sólveig tók mikinn þátt í félags- og menningarlífi Seyðisfjarðar og var einn af stofnendum Kvenfélagsins „Kvik" árið 1900.Íslenskar konur fengu kosningarétt til bæjar- og sveitarstjórna árið 1908.

Sólveig Jónsdóttir var fyrsta konan sem kosin var í bæjarstjórn Seyðisfjarðar árið 1910. Hún sat í bæjarstjórn til 1913 en var þá ekki endurkosin. Sólveig var á tveimur framboðslistum og var annar þeirra eingöngu skipaður konum – einn af fyrstu kvennalistunum á Íslandi.

Maður Sólveigar flutti til Bandaríkjanna 1913, þegar Sólveig var ófrísk af fjórða syninum og kom sér fyrir í Baltimore í Maryland.

Í grein Sigrúnar Klöru Hannesdóttur um Sólveigu segir að hún hafi sex árum síðar flust vestur ásamt þremur elstu sonunum en sá yngsti orðið eftir hjá ömmu sinni og átt að vera nokkurs konar trygging fyrir því að hún kæmi aftur.

Í bréfum Sólveigar má greina mikla heimþrá og jafnvel beiskju. Henni fannst lífið erfitt og henni leið ekki vel. Fjárhagurinn var bágur og mikil viðbrigði frá lífinu á Seyðisfirði.

Sólveig lést 12. apríl 1962 og var jarðsungin í hermannagrafreitnum við hlið manns síns í Baltimore undir nafninu Solveig Stefansson.

Við sama tækifæri var Arnbjörg sjálf heiðruð en hún var fyrsta austfirska konan sem var kjörin á þing. Hún sat á Alþingi frá 1995-2009 fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.