Hoffellið farið fram úr öllum væntingum og veitt fyrir 1,5 milljarð króna

hoffell milljardurTekið var á móti Hoffellinu á Fáskrúðsfirði með köku í gærmorgun þegar það kom að landi með 1.360 tonn af kolmunna. Þar með er heildaraflaverðmæti skipsins, sem keypt var síðasta sumar, komið yfir 1,5 milljarð króna.

„Skipið hefur reynst í alla staði mjög vel og langt umfram okkar væntingar," segir Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar.

Skipið kom til landsins þann 6. júlí í fyrra og hélt til veiða níu dögum síðar. Það hefur síðan veitt alls 38.700 tonn sem metin eru á rúman 1,5 milljarð króna, þar af fyrir rúmar 900 milljónir það sem af er ári.

Í samtali við Austurfrétt sagði Friðrik Mar að vonast hefði verið eftir að aflaverðmæti skipsins á ársgrundvelli yrði rúmur milljarður króna. Til samanburðar má nefna að gamla Hoffellið veiddi mest fyrir um 800 milljónir á ári.

Nýja Hoffellið er mun stærra og öflugra en það sem það leysti af hólmi. Því getur það sótt lengra út á miðin, borið meira magn og er betur búið. Einkum munar um öflugri kælingu sem skilar betra hráefni að landi.

En það er ekki sjálfgefið að betri búnaður skili strax auknum árangri. „Það er eitt að vera með nýtt skip en stundum þarf að ná tökum á nýjum tækjum og það hefur gengið vel," útskýrir Friðrik.

Skipið fer aftur á veiðar í kvöld og því má búast við að það nái 1-2 ferðum í viðbót fyrir afmælið.

Kjartan Reynisson, útgerðarstjóri og Bergur Einarsson, skipstjóri halda á tertunni en áhafnarmeðlimir eru á bakvið. Mynd: Loðnuvinnslan

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.