Vilhjálmur G. Pálsson: Sárt að missa stóru sjóðina

villi sparnor juni15Allt stefnir í að innan tíðar verði Sparisjóður Austurlands, sem þar til í apríl var kenndur við Norðfjörð, einn af fjórum sparisjóðum sem eftir eru í landinu en þrír stórir sjóðir hafa horfið undir bankana nýverið. Vilhjálmur G. Pálsson, sparisjóðsstjóri, er jafnframt nýr formaður Sambands íslenskra sparisjóða (SÍSP)

Í lok mars yfirtók Landsbankinn Sparisjóð Vestmannaeyja eftir að í ljós kom að eignastaða hans var mun lakari en áður var talið og stór aðili tók inneign sína út. Arion-banki er að yfirtaka AFL sparisjóð á Siglufirði og Sauðárkróki og beðið er staðfestingar Samkeppniseftirlitsins á samruna Landsbankans og Sparisjóðs Norðurlands.

Eftir eru sjóðir Suður-Þingeyinga, Höfðhverfinga og Strandamanna. Jafnvel hefur verið talað um að sparisjóðakerfið sé fallið.

„Ef við tölum um skilgreininguna á kerfi þá eru bara fjórir litlir sjóðir eftir ef samruni Sparisjóðs Norðurlands og Landsbankans gengur eftir og þeir saman geta varla talist kerfi, nema þá mjög veikt.

Þetta hefur þau áhrif að sjóðirnir eru ekki eins burðugir til að halda úti sameiginlegum verkefnum eins og hagsmunagæslu, upplýsingakerfum og markaðsstarfi. Það er óhagkvæmt að vera lítill og því er sárt að missa stóra sjóði úr keðjunni sem hefðu getað tekið þátt í sameiginlegum kostnaði.

Við þurfum að gera nýjar ráðstafanir fyrir SÍSP þannig við getum rekið okkur áfram en það lítur ágætlega út. Sambandið á töluvert af eigið fé og það steðjar enginn bráðavandi að því, bara mál til að leysa," segir Vilhjálmur í viðtali í nýjasta tölublaði Austurgluggans.

„Ég vona að þetta sé búið í bili en ég hefði viljað sjá sparisjóðakerfið lifa og vera valkostur gegn bönkunum.

Staða sjóðsins í Vestmannaeyjum kom mér mest á óvart, það var nánast enginn aðdragandi að því á meðan AFL hafði verið lengi undir eignarhaldi Arion og það var ekki eðlilegt að viðskiptabanki væri með eignarhald á stofnun í samkeppni við sig.

Sjóðurinn var settur í söluferli og það sýndu aðilar áhuga á honum en eftir niðurfærslu á útlánasafninu upp á tæpan milljarð eftir áreiðanleikakönnun var hætt við það. Það var sárt því maður hafði trú á að það kæmu öflugir aðilar til að reka sjóðinn fyrir norðan."

Leist ekki á siglinguna á SpKef

Nokkrum sinnum hefur verið rætt um að sameina austfirska sjóðinn en þær hugmyndir aldrei náð langt. Á árunum fyrir hrun sýndi Sparisjóður Keflavíkur meðal annars áhuga en hann var ekki gagnkvæmur.

„Okkur leist ekki á siglinguna á honum. Hann reyndi að sameina sjóði undir sínum merkjum, Húnvetninga og Vestfirðinga og nánast Þórshöfn en þaðan var bakkað út á síðustu stundu.

Framamenn þessara stærstu sparisjóða voru á allt annarri leið en við. Þeir voru meira að horfa á fjárfestingabankahlutann sinn og reyna að keppa við bankana."

Hann segir samstarfið innan sparisjóðanna hafa gengið ágætlega þótt menn væru ekki alltaf sammála um hvert skyldi stefna.

„Við vorum alltaf frekar íhaldssamir. Maður sá ársuppgjörin hjá stóru sjóðunum þar sem var gríðarlegur hagnaður því þeir höfðu fjárfest í hlutabréfum sem voru uppfærð en við sátum eftir og var strítt fyrir lélega afkomu.

Eftir á að hyggja var kannski skynsamlegt að fara varlegar og sætta sig við minni afkomu og ávöxtun á eigið fé og vera með hlutina í betra horfi ef eitthvað kæmi upp á."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar