Eiður Ragnars hættir í bæjarstjórn Fjarðabyggðar
Eiður Ragnarsson, fulltrúi Framsóknarflokks í bæjarstjórn Fjarðabyggðar, hefur sagt sig úr bæjarstjórninni. Ástæðan er að hann er að flytja aftur á æskustöðvarnar í Djúpavogshreppi.Afsögn Eiðs var samþykkt á síðasta fundi bæjarráðs Fjarðabyggðar og honum þakkað samstarfið á síðustu árum. Sæti hans tekur Hulda Sigrún Guðmundsdóttir.
Frekari breytingar verða þar með á skipan nefnda. Jón Björn Hákonarson tekur við sem formaður eigna- skipulags- og umhverfisnefndar.
Hann hættir á móti í félagsmálanefnd. Hulda Sigrún verður þar formaður og Ásmundur Páll Hjaltason kemur inn í nefndina.
Sæti Eiðs í hafnarstjórn tekur Pálína Margeirsdóttir, bæjarfulltrúi og verður varaformaður stjórnarinnar.
Á sama fundi var samþykkt sú breyting á nefndaskipan Fjarðalistans að Alamar Blær Sigurjónsson verði varamaður í íþrótta- og tómstundanefnd í stað Óskars Ágústs Þorsteinssonar.