Ljót aðkoma að lóðum Síldarvinnslunnar eftir nóttina
Starfsfólki Síldarvinnslunnar í Neskaupstað var brugðið mjög þegar komið var til vinnu í morgun en þá hafði óprúttinn einstaklingur eða einstaklingar gert sér að leik að spæna upp gróin svæði við fyrirtækið með utanvegaakstri í nótt. Bifreið var einnig ekið inn á endurnýjaðan gervigrasvöll heimamanna að næturlagi en engar skemmdir virðast hafa orðið á vellinum.
Aðkoman vægast sagt ljót eins og sést á meðfylgjandi mynd sem Hafþór Eiríksson, verksmiðjustjóri hjá Síldarvinnslunni, tók og birti á samfélagsmiðlum í morgun. Unnið hefur verið lengi vel að því að snyrta kringum athafnasvæði fyrirtækisins og blóðugt mjög að koma að slíkri eyðileggingu að hans sögn. Óskaði hann þar eftir að viðkomandi gæfi sig fram hið fyrsta ellegar yrði lögregla kölluð til.
Það kann þó að vera að ekki þurfi langa rannsókn til að komast að því hver eða hverjir voru þarna að verki. Myndavélakerfi er við gervigrasvöllinn og þar sést bíll greinilega aka á vellinum í nótt samkvæmt upplýsingum frá Sigurjóni Egilssyni, forstöðumanni íþróttasvæðanna í Neskaupstað. Meta menn það líklegt að þar sé um sama aðilann að ræða og spændi upp lóðirnar við Síldarvinnsluna.
„Við höfum ekki fundið neinar skemmdir á vellinum,“ segir Sigurjón. „En það var sannarlega farið inn á völlinn í nótt. Þar erum við með myndavélakerfi og nú er verið að greina myndirnar. Ef viðkomandi gefa sig ekki fram fljótlega þá tel ég að þeir finnist nú hratt og örugglega. En sem betur fer virðist bíllinn ekki hafa farið inn á gervigrasið og spólað í hringi heldur aðeins farið á bílnum innfyrir girðingu og keyrt aðeins um á grasinu.“
Sigurjón telur ólíklegt að kæra verði lögð fram fyrst ekki finnast neinar skemmdir á vellinum en Hafþór hjá Síldarvinnslunni hyggst kalla til lögreglu ef ökumaðurinn gefur sig ekki sjálfur fram fljótlega.