„Varla um óviljaverk að ræða“: 40 gólfplötum stolið á Seyðisfirði
Starfsfólki Tækniminjasafnsins á Seyðisfirði brá heldur í brún í morgun þegar verið var að undirbúa árlega Smiðjuhátíð og í ljós kom að spýtuplötur sem leggja átti í stórt veitingatjald voru horfnar.Í samtali við Austurfrétt nú eftir hádegi segir Pétur Kristjánsson, forstöðumaður safnsins, að enn hafi ekkert til platanna spurst, en þær eru alls 40 talsins.
„Við áttuðum okkur bara á þessu í morgun þegar við ætluðum að fara að leggja gólfið í tjaldið," segir Pétur, en um stórt veitinga- og samkomutjald er að ræða sem staðsett verður á Angróbryggju.
„Við höfum notað þessar plötur árlega undir teppið í tjaldinu. Gengið var frá þeim á sama stað og venjulega síðasta sumar og ætluðum við að ganga að þeim vísum núna. Þetta eru margir og stórir flekar og hefur því þurft bíl til þess að nema þetta á brott og því varla um óviljaverk að ræða. Ég held reyndar að einhver hafi bara fengið þetta lánað og okkur þætti afar vænt um að sá hinn sami myndi skila plötunum eftir notkun, við getum þá nýtt þær að ári," segir Pétur.
Undirbúningur aldrei gengið betur
Smiðjuhátíðin í Tæknimynjasafninu er skemmtileg og fræðandi fjölskylduhátíð sem haldin er seinni partinn í júlí ár hvert og segir Pétur undirbúning aldrei hafa gengið betur þrátt fyrir þetta.
„Við björgum okkur og látum þetta ekki slá okkur út af laginu. Þetta er í níunda skipti sem við höldum hátíðina og undirbúningur hefur aldrei gengið betur. Það verður mikið um að vera. Prentsmiðjan og eldsmiðjan verða í fullum gangi sem og loftskeytastöðin. Á safnasvæðinu er hægt að skoða handverk og fylgjast með handverksmönnum vinna og spennandi handverksnámskeið eru í boði á vegum safnsins.
Útvarpsstöðin Radio Tower FM 101,4 verður að sjálfsögðu starfrækt sem fyrr auk þess sem einvala tónlistarmenn koma og spila með okkur. Að sjálfsögðu verða kótilettur, flatkökur, jólakökur og fleira góðmeti á boðstólum og hátíðin endar með fjörugu bryggjuballi á Angrósbryggjunni.
Þetta er fjölskylduhátíð sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara sem ókeypis er inn á," segir Pétur.
Pétur segir veðrið ekki hræða sig. „Veðrið getur ekki sett strik í reikninginn, við einfaldlega sættum okkur við það hvernig sem er og hegðum okkur eftir því. Auðvitað væri skemmtilegra ef við fengjum sól og log en spáin er góð."
Dagskrá hátíðarinnar í heild sinni má sjá hér.