Mikill áhugi á áframvinnslu áls á Austurlandi
Austurbrú stóð fyrir málstofunni „Áframvinnsla á áli, möguleikar og tækifæri" í Fróðleiksmolanum á Reyðarfirði síðastliðinn fimmtudag.Á málstofunni var fulltrúum iðnfyrirtækja og hönnunarsamfélagsins á Austurlandi stefnt saman við frumkvöðla til að ræða um hráefnið ál og mögulega áframvinnslu þess.
Mikill áhugi var fyrir málstofunni og þétt setið í salnum. Við setningu fundarins ræddu þau Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls og Jóna Árný um þá möguleika sem skapast með Álklasanum sem nýlega var stofnaður. Markmið hans er að efla samkeppnishæfni fyrirtækja í klasanum og auka sýnileika, rannsóknir og nýsköpun á þessu sviði.
Fjögur fróðleg erindi
Fjögur erindi voru flutt á málstofunni. Grétar Már Þorvaldsson, frummótasmíðameistari hjá Málmsteypunni Hellu í Hafnarfirði, sagði frá þeirri frumkvöðlavinnu sem unnin hefur verið hjá fyrirtækinu í gegnum tíðina og þeim fjölmörgu afurðum sem framleiddar eru hjá Hellu bæði úr áli og öðrum málmum.
Davíð Þór Sigurðarson, verkefnastjóri útflutnings og Óskar Björnsson, málmfræðingur frá Alcoa Fjarðaáli, fjölluðu um framleiðsluferilinn í steypuskála fyrirtæksisins og kynntu þær vörur sem þar eru framleiddar. Þá sýndu þeir og sögðu frá því í hvað álið frá Fjarðaáli fer og kynntu helstu viðskiptavini fyrirtækisins. Sem dæmi má nefna Nexans sem kaupir frá Fjarðaáli víra á rúllum sem síðan eru notaðir í háspennukapla og strengi. Þekkt eru dæmi um að álið komi aftur heim þegar fyrirtæki hér kaupa vörur af Nexans.
Lilja Guðný Jóhannesdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú, kynnti Fab Lab Austurlands sem staðsett er í Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað. Þar eru mikil tækifæri fyrir hendi og velti Lilja upp þeirri hugmynd að bæta við Fab Labið þeim möguleika að vinna með bráðinn málm og lagði til að það yrði kannað.
Að lokum fjallaði Garðar Eyjólfsson, lektor í hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands, um það hvernig hönnun getur kveikt hugmyndir um notkunarmöguleika innan samfélagsins þannig að hægt sé að áframvinna hráefni í nýjar vörur. Garðar sýndi nokkur skemmtileg dæmi um hvernig nemendum hans og honum sjálfum hefur tekist að skapa nýjar afurðir úr einhverju sem annars hefði ekki verið nýtt.
Stofnun faghóps
Á fundinum var ákveðið sem næsta skref í kjölfar málstofunnar að stofna faghóp áhugasamra fyrirtækja, stofnana og einstaklinga á Austurlandi um hráefnið ál. Markmið hópsins verður að skoða hvaða tækifæri eru í umhverfinu og koma með hugmyndir að verkefnum sem stuðlað gætu að aukinni áframvinnslu á áli á Austurlandi og með hvaða hætti hægt sé að hrinda slíkum hugmyndum í framkvæmd.
10 milljón króna styrkur
Á fundinum var einnig styrkur veittur frá Alcoa Foundation til Austurbrúar. Um er að ræða styrk til þriggja ára og er heildarupphæð hans 75 þúsund dollarar eða um 10 milljónir króna.
Styrkurinn er veittur til að byggja upp inniviði skapandi greina á Austurlandi og til að koma upp aðstöðu þar sem listamenn geta unnið með hráefni úr héraði svo sem ull, hreindýr, tré, fisk og ál sem nú hefur bæst í hráefnaflóru listamanna á Austurlandi. Þá mun styrkurinn einnig nýtast til að styðja við þverfaglega deilingu á þekkingu og reynslu milli hönnuða, nýsköpunaraðila, fyrirtækja og skólaumhverfis.
Kristinn Harðarson, framkvæmdastjóri fjárfestinga og framleiðsluþróunar hjá Fjarðaáli afhenti Jónu Árnýju Þórðardóttur, framkvæmdastjóra Austurbrúar, og Láru Vilbergsdóttur, verkefnastjóra skapandi greina hjá Austurbrú, styrkinn fyrir hönd Alcoa Foundation. Hann sagði við það tækifæri að gaman yrði að fylgjast með framgangi verkefnisins og að hann vonaðist til að styrkurinn nýttist til að efla enn frekar gróskumikið samfélag listamanna og hönnuða á Austurlandi.
Mynd: Veittur var styrkur frá Alcoa Foundation til að styðja við skapandi greinar á Austurlandi. Á myndinni eru t.f.v. Kristinn Harðarsson, framkvæmdastjóri fjárfestinga og framleiðsluþróunar hjá Alcoa Fjarðaáli og Dagmar Ýr Stefánsdóttir upplýsingafulltrúi fyrirtækisins, Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar og Lára Vilbergsdóttir, verkefnastjóri skapandi greina hjá Austurbrú.