Augnlæknir væntanlegur í Fjarðabyggð
Augnlæknaþjónusta mun verða í boði í Fjarðabyggð í kringum mánaðarmótin september-október. Þetta verður í fyrsta sinn í meira en ár sem augnlæknaþjónusta verður í boði í sveitarfélaginu.Augnlæknirinn sem þjónað hefur Fjarðabyggð undanfarin ár, Örn Sveinsson, sá sér ekki annað fært en að hætta komum sínum þangað og á aðra staði sem hann hefur þjónað á landsbyggðinni. Ástæðan fyrir því er nýr samningur á milli Sjúkratrygginga Íslands og sérfræðilækna, sem hefur í för með sér að þegar sérfræðilæknir nær tilteknum einingafjölda, þá er honum gert að gefa afslátt af þjónustu sinni.
Nú hefur Heilbrigðisstofnun Austurlands hinsvegar náð samkomulagi við Örn Sveinsson um að koma austur í haust. Sömuleiðis hefur verið ákveðið að auglýsa á næstunni eftir augnlækni sem væri tilbúinn til þess að koma reglubundið austur og sinna augnlæknaþjónustu í Fjarðabyggð.
Pétur Heimisson, framkvæmdastjóri lækninga við HSA, segir í samtali við Austurfrétt að það sé miður að augnlæknaþjónusta hafi ekki staðið til boða í sveitarfélaginu í jafn langan tíma og raun ber vitni. Ennfremur segir Pétur að það verði gott að fá Örn aftur til starfa, hann þekki svæðið vel og starf hans í Fjarðabyggð hafi verið farsælt.