Hafbjörgin bjargaði vélarvana bát
Hafbjörg á Norðfirði var eitt þeirra björgunarskipa Slysavarnafélagsins Landsbjargar sem kallað var út í gær til aðstoðar bátum á Íslandsmiðum.Í tilkynningu frá Landsbjörgu segir að skip félagsins hafi alls verið kölluð fimm sinnum út í gær.
Kallið barst um klukkan tvö í gær vegna vélarvana báts austnorðaustur af Norðfjarðarhorni. Hafbjörg tók bátinn í tog og var kominn til hafnar um klukkan hálf níu í gærkvöldi.
Á vegum Landsbjargar eru rekin 13 björgunarskip staðsett hringinn í kringum landið með það í huga að styst sé á þær leiðir þar sem umferð skipa og báta er mest.
Skipin eru smíðuð og hönnuð til leitar og björgunar og eru vel til þess fallinn að takast á við erfiðar aðstæður sem oft verða við strandir landsins. Um borð í skipunum er dælu- og slökkvibúnaður auk þess sem þau geta tekið allstór skip í tog þurfi þess.
Þau geta náð um 15 – 17 sml (28-30 km/klst) hraða á klukkustund. Fjórir til sex björgunarmenn manna hvert skip og af þeim eru menntaðir skipstjóri og vélstjóri.
Allir hafa þessir aðila fengið sérhæfða þjálfun í meðhöndlun skipsins, leit og björgun á sjó, slökkvistörfum, fyrstu hjálp og fleiru. Auk námskeiða sem félagið heldur er sótt menntun í Slysavarnaskóla sjómanna og erlendis.
Björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar eru kölluð út um 100 sinnum á ári, oftast til björgunarstarfa þ.e. þegar sjófarendur eru í neyð eða skip eða bátar verða vélarvana.
Björgunarskip við hlið Akrafells fyrir rúmu ári.