Tjöldin tóm á Kelati-stöðinni: Hjálpum þessu fólki

IMG 2091 webFlóttamenn í Ungverjalandi eru hvattir til að passa upp á eigur sínar og hvers konar ferðamáta þeir kjósa sér, segir Austfirðingur sem nýkominn er frá landinu. Hún segist upplifa úrræðaleysi eftir heimkomuna.

„Það stakk mig að fara þarna í gegn og sjá aðstæðurnar, þótt ég sæi ekki nema brot af þeim. Það vakti mig til umhugsunar um hvað fólkið hefur gengið í gegnum og hví það flýr heimkynni sín."

Þetta segir Rebekka Karlsdóttir frá Þrepi í Eiðaþinghá en hún var meðal tólf ungmenna sem ferðuðust borgarinnar Orosháza í Ungverjalandi í evrópsku ungmennaskiptaverkefni á vegum UÍA. Á leiðinni fór hópurinn í gegnum Kelati, aðalbrautarstöðina í höfuðborginni Búdapest, þar sem flóttamenn hafa hafst við.

Rebekka segir að á leiðinni til Orosháza hafi hópurinn verið seinn fyrir þannig ekki hafi verið mikill tími til að kanna aðstæður flóttamannanna.

„Við sáum búðirnar og fólk að leika sér í fótbolta og hrúgur af fötum og skóm. Ég heyrði síðan af vinkonu systur minnar sem var þarna sama dag í fjóra tíma að hjálpa á stöðinni þannig það var meira að baki en við sáum."

Getið dáið ef þið farið upp í flutningabílana

Ögn rýmri tími var í bakaleiðinni en þá voru flóttamennirnir farnir af svæðinu. Ummerki voru hins vegar til staðar.

„Mér fannst sorglegt að sjá engan. Eftir var stór dýnustafli og nokkur tóm tjöld, annars var verið að spúla gólfið og ganga frá öllu.

Um allt héngu blöð með teikningum og skilaboðum á arabísku og ensku þar sem flóttamönnunum var sagt að fara ekki upp í sendiferðabíla því þeir gætu dáið og að passa upp á dótið sitt á nóttunni því þá gætu þjófar verið á ferli. Þetta sló mig mest."

Útlendingaótti í landinu

Slétt vika er síðan hópurinn fór í gegnum Kelati-stöðina á leið sinni heim. Tveimur dögum fyrr komu tæplega sex þúsund flóttamenn til Ungverjalands yfir landamærin frá Serbíu. Fólkið komst yfir áður en lög gengu í gildi sem heimiluðu handtöku þeirra sem komið hafa án leyfis til landsins.

„Ég las að sprautað hefði verið á það með háþrýstidælum þegar ég stóð á tómri brautarstöðinni."

Rebekka segir að hópurinn hafi rætt málefni flóttamannanna við ungversku ungmennin sem tóku á móti þeim.

„Við viðruðum áhyggjur okkar því við vorum leið yfir sjá hvernig komið væri fyrir fólkinu. Mér fannst þau fara í vörn með því að segja að ríkisstjórnin þeirra væri að fara eftir reglum og þyrfti að gera þetta."

Hún bætir því við að hópurinn hafi fundið fyrir spennunni sem ríkt hafi í Ungverjalandi. „Við vorum spurð hvort við værum Þjóðverjar en fengum bros þegar við sögðumst ekki vera þaðan. Gestgjafar okkar röktu það meðal annars til fréttaflutnings þar sem Þjóðverjarnir væru málaðir vondir.

Verkefnið sem við tókum þátt í var skemmtilegt en við upplifðum spennu í loftinu og útlendingahræðslu. Ég fékk ónotahnút í magann þegar ég hugsaði til þess að við upplifðum bara brotabrot af því viðmóti sem mætir flóttafólkinu."

Erfitt að hjálpa frá Egilsstöðum

Komin heim segist Rebekka upplifa úrræðaleysi en finnur mikla löngun til að hjálpa flóttafólkinu. „Ég er bara hér á Egilsstöðum svo langt frá. Maður veit ekki hvað maður getur gert.

Ég hef sett pening í neyðarsöfnun og teppi og skráð mig sem sjálfboðaliða hjá Rauða krossinum til að taka á móti flóttafólki.

Síðan ég kom heim hef ég hugsað mikið um hvað ég geti gert til að hjálpa en næ ekki alveg utan um það. Ég er hins vegar mjög hlynnt því að við tökum á móti flóttamönnum því við getum virkilega boðið þeim betra líf. Hjálpum þessu fólki."

Myndir: Rebekka Karlsdóttir

IMG 2094 webIMG 2098 webIMG 2100 webIMG 2101 webIMG 2102 webungverjaland 0586 snyrt web

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.