Mikilvægt að gefa sér tíma til að ræða hlutina við kynslóðaskipti
Kynslóðaskipti á bújörðum verða ekki í einu vettvangi heldur eru langt ferli, einkum ef vel á að takast til. Kynslóðaskipti eru áhersluatriði í nýju verkefni Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins sem stýrt hefur verið frá Austurlandi.Ættliðaskiptin gerast ekki með einu símtali. Það þarf að formgera hlutina og það þarf að gerast í góðu samkomulagi allra sem hlut eiga að máli."
Það er mikilvægt að gefa sér nokkur misseri til að ræða málin um hvernig fara eigi með til framtíðar ef börn eða annar ættingi vill koma inn.
Það þarf umræðu innan fjölskyldunnar og vita hver hugur foreldra eða eigenda er til jarðarinnar og framtíðarinnar svo ekki kom fram erfið innri mál síðar," sagði Runólfur Sigursveinsson, sérfræðingur hjá RML á nýafstöðu fræðaþingi Búnaðarsambands Austurlands.
Hann kynnti þar verkefnið „Búseta í sveit" sem varð til eftir ályktun búnaðarþings en það miðar að því að veita ráðgjöf vegna ættliðaskipta og starfsemi í dreifbýli.
Verkefnisstjórinn hefur verið Guðný Harðardóttir sem staðsett er eystra en gat því miður ekki kynnt verkefnið þennan dag. Runólfur hljóp því í skarðið en hrósaði Guðnýju. „Þetta er eitt best heppnaða verkefnið í þróunarstarfi innan greinarinnar."
RML hefur gefið út vegvísa um ábúðarskipti og veitir nánari ráðgjöf gegn gjaldi. Vegvísarnir eru bæði ætlaðir þeim sem alist hafa upp í sveit og þeim sem koma nýir inn í greinina úr þéttbýlinu en þekkir síður umhverfið.
Að mörgu er að hyggja við ættliðaskiptin og nokkrar mismunandi leiðir í boði, til dæmis að kaupa allt búið og jörðina með að yfirtaka skuldir og borga kaupverð eða leigja jörð en kaupa bústofn og tæki. Samrekstur er líka til þar sem nýi aðilinn byrjar að kaupa hlut í bústofni og tækjum.
Kaupleiga verður sífellt algengari þar sem leigutaki vinnur sig smám saman inn í rekstur og eignarhald. „Leigan er hins vegar alltaf tímabundin. Spurningin er hvað gerist svo. Tíu ára leiga er langur tími og erfitt að láta hana ganga til baka."
Runólfur sagði að sérstaklega þyrfti að skoða skattamál við kynslóðaskipti. Stundum sé horft um of á krónutöluna á blaðinu umfram þá sem verður niðurstaðan.
Hann sagði einnig að rekstrarumhverfið væri erfitt, meðal annars vegna hárra vaxta. „Fjárbinding í búskap er mjög mikil en veltan tiltölulega lítil.
En er það eðlilegur framgangsmáti í atvinnugreininni að hver kynslóð endurfjármagni bæði framleiðsluaðstöðu og jörðina."