Landsnet sendi auka mannskap austur

raflinur isadar landsnetLandsnet hefur sent aukaflokk línumanna til Austurlands til að vera í viðbragðsstöðu til að viðhalda raforkuflutningskerfinu í kvöld. Almannavarnir fylgjast með þróun mála.

„Það verður mikil veðurhæð og vindur en líka úrkoma sem kemur fyrst inn á landið fyrir austan. Úrkoman verður í formi snjókomu svo það skapast ísingarhætta sem gæti orðið meiri fyrir austan en annars staðar. Síðan getur samsláttur á línum líka valdið truflunum."

Þetta segir Einar S. Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnunarsviðs Landsnets. Viðbúnaður hefur verið aukinn í stjórnstöðinni sem stýrir raforkuflutningi um allt land eftir byggðalínunni og viðgerðarflokkar eru í viðbragðsstöðu.

Einn slíkur lagði af stað keyrandi frá Reykjavík snemma í morgun til að vera til taks á Austurlandi.

Almannavarnir lýstu í morgun yfir óvissuástandi vegna austan hvassviðris sem spáð er á næstu klukkustundum og fram eftir nóttu.

Hjá lögreglunni á Austurlandi fengust þær upplýsingar að björgunarsveitir og aðrir viðbragðsaðilar séu í starfholunum hver í sínu byggðalagi þar sem ólíklegt er talið að hægt verði að flytja fólk á milli byggðarlaga. Sérstaklega er fylgst með úrkomu og snjóflóðahættu.

Landsmenn hafa verið hvattir til að ganga tryggilega frá lausum munum utandyra, líka þeim sem alltaf hafi verið til friðs. Eigendur skipa og báta eru beðnir um að huga að landfestum.

Enginn ætti að stofna sjálfum sér eða öðrum í hættu við að bjarga verðmætum á meðan veðrið gengur yfir heldur halda sig innandyra en vera ekki við glugga sem eru áveðurs.

Gott er að moka snjó frá húsveggjum og af svölum og geri vatnsrásir í snjóinn að niðurföllum. Þar sem grýlukerti og snjór hafa ekki þegar fallið af þökum má búast við að það gerist við þessar aðstæður.

Tryggja þarf að enginn verði þar undir með því að afmarka gönguleiðir og að engin verðmæti séu undir.

Á Breiðdalsvík hefur íbúafundi um málefni sveitarfélagsins verið frestað um viku og á Borgarfirði hefur tombólu í grunnskólanum verið ferstað til fimmtudags

Sveitarfélögin Fljótsdalshérað og Fjarðabyggð sendu frá sér í dag tilkynningar um að stofnunum þeirra: skólum, íþróttamiðstöðvum og bókasöfn lokuðu klukkan fimm í dag. Foreldrar eru hvattir til að fylgja börnum sínum heim eða þeir beðnir að tryggja að þau fái fylgd heim.

Búist er við að veðrinu sloti í nótt en sveitarfélögin heita frekari upplýsingum um opnun skóla í fyrramálið.

Hjá fjölmennasta vinnustað Austurlands, álverinu, hafa verið virkjaðar viðbragðsáætlanir, bæði gagnvart mönnun og rafmangstruflunum. Reynt er að manna álverið sem mest með starfsfólki úr nágrenninu en þeim sem lengra sækja vinnu og eru að vinna í kvöld verður komið fyrir á gistihúsum á Reyðarfirði. Rúturnar sem fara áttu klukkan fjögur var flýtt til klukkan þrjú og aðrar ferðir felldar niður.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.