„Samstarfið um jólasjóðinn er til fyrirmyndar"

sigrun thorarinsdottir nov15 0012 web
Aðstandendur jólasjóðanna á Austurlandi segja söfnun í þá ganga vel, en þó er hverju framlagi tekið fagnandi hendi.
Tveir stórir jólasjóðir eru starfræktir á Austurlandi.

Annars vegar innan Fjarðabyggðar og Breiðdalsvíkur, en hins vegar á félagsþjónustusvæði Fljótsdalshéraðs, en hann nær til Fljótsdalshéraðs, Fljótsdalshrepps, Seyðisfjarðar, Djúpavogs og Borgarfjarðar.

Meginmarkmið þeirra er styðja einstaklinga og fjölskyldur sem þurfa á sérstakari aðstoð að halda fyrir jólin, en styrkirnir felast í úttektarkorti í matvöruverslunum á svæðinu.


Erum mjög heppin með framlög í sjóðinn

Jólasjóðurinn í Fjarðabyggð var stofnaður fyrir nokkrum árum í samvinnu við Starfsgreinasambandið Afl.

Aðstandendur sjóðsins eru Rauðakrossdeildir á Eskifirði, Fáskrúðsfirði, Norðfirði, Reyðarfirði, Stöðvarfirði og Breiðdalsvík, Þjóðkirkjan, Kaþólska kirkjan, fjölskyldusvið Fjarðabyggðar og mæðrastyrksnefnd kvenfélagsins Nönnu á Norðfirði.

„Við reiknum með að ásókn í jólasjóðinn verði svipuð og í fyrra. Fulltrúar frá fjölskyldusviði Fjarðabyggðar, kirkjunum og Rauða krossinum hafa fundað og farið yfir stöðu sjóðsins, nafnalista og framkvæmd á úthlutun korta og fleira.

Starfsmaður fjölskyldusviðs Fjarðabyggðar sér um utanumhald þeirra aðila sem eru í þörf fyrir aðstoð og pantar inneignarkort í matvöruverslunum í sveitarfélaginu," segir Sigrún Þórarinsdóttir, félagsmálastjóri Fjarðabyggðar.


Fyrirtæki og félagasamtök hafa verið dugleg að styrkja

Í fyrra var aðstoð veitt til 73 heimila, 96 fullorðinna og 106 barna á félagsþjónustusvæði Fjarðabyggðar.

Fjöldi heimila var sá sami og árið 2013, en einhver heimili féllu út af listanum og önnur komu inn í staðinn. Fjöldi fullorðinna styrkþega stóð í stað en fjöldi barna jókst á milli ára. Heildarstyrkupphæð var kr. 3.350.000 og var styrkurinn jafn hár og fyrri ár, á hvern einstakling.

„Fyrirtæki og félagasamtök hafa verið öflug við að styrkja jólasjóðinn undanfarin ár, en þegar er búið að senda bréf til allra fyrirtækja þar sem starf sjóðsins er kynnt og styrkja óskað, í formi innlagna inn á velferðasjóð kirkjunnar.

Samstarfið um jólasjóðinn í Fjarðabyggð og Breiðdalsvík er til fyrirmyndar og telja þeir sem koma að honum að með samstarfi náum við sem bestum árangri. Alltaf er spurning um þá sem leita sér ekki aðstoðar en með þessu samstarfi minnka líkurnar á því.

Við erum mjög heppin með framlög í sjóðinn og hefur jólasjóðurinn getað aðstoðað alla einstaklinga sem til hans leituðu."

Hægt er að leggja inn á söfnunarreikning jólasjóðs Fjarðabyggðar: 0569-14-400458 Kt. 520169-4079.


Tökum fagnandi á móti öllum styrkjum

Að sjóðnum á félagsþjónustusvæði Fljótsdalshéraðs standa Rauða Kross deildir Héraðs- og Borgarfjarðar, Seyðisfjarðar, Djúpavogs, en auk þess Lionsklúbburinn Múli, AFL starfsgreinafélag, þjóðkirkjan og félagsþjónusta Fljótsdalshéraðs.

Dagur Skírnir Óðinsson verkefnisstjóri Rauða Krossins á Austurlandi hefur unnið að sjóðnum fyrir hönd Rauða Kross deildana á svæðinu, auk Ragnhildar Rósar Indriðadóttur, formanns Héraðs- og Borgarfjarðardeildar.

Dagur hefur einnig aðkomu að sjóðnum í Fjarðabyggð og segir hann samstarf við alla aðila vegna beggja jólasjóða hafa gengið ákaflega vel.

„Söfnunin hefur farið ágætlega af stað og erum við þakklát þeim sem hafa styrkt okkur og tökum við fagnandi á móti öllum styrkjum.

Það er mjög ánægjulegt að fá að taka þátt í svona mikilvægu og gefandi verkefni fyrir jólin, en um leið er maður örlítið hugsi yfir því hversu margir í þjóðfélaginu þurfa aðstoð nú þegar að það er búið að lýsa því yfir að það sé komið góðæri aftur," Dagur.

Hægt er að leggja inn á söfnunarreikning jólasjóðs félagsþjónustusvæðis Fljótsdalshéraðs: 0175-15-380606 kt. 530505-0570.

Sigrún Þórarinsdóttir, félagsmálastjóri í Fjarðabyggð. Ljós: GG

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.