Aðeins rofar til í bílstjóramálum hjá Terra
Aðeins hefur rofað til í bílstjóramálum hjá Terra að undanförnu. Einn slíkur er á leið austur frá Hafnarfirði og annar frá Reykjavík er sennilega á leiðinni líka.„Frétt Austurfréttar um að ekkert gengi hjá okkur að fá meiraprófsbílstjóra vakti mikla athygli og viðbrögð og við fengum fyrirspurnir í kjölfar hennar,“ segir Jón Trausti Guðjónsson rekstrarstjóri Terra.
Jón Trausti segir að bílstjórinn í Hafnarfirði eigi systur á Reyðarfirði og hann hafi ákveðið að slá til og koma austur þegar hann sá fréttina. Hvað bílstjórann í Reykjavík varðar eru þeir hjá Terra búnir að taka starfsviðtal við hann og sennilega er hann einnig á leið austur.
„Með þessa tvo menn erum við ekki í jafnmiklum bráðavanda og við vorum,“ segir Jón Trausti. „En við höfum enn áhuga á að heyra í fleiri bílstjórum.“
Í frétt Austurfréttar kom m.a. fram að þrátt fyrir að hafa auglýst eftir meiraprófsprófs- og tækjamönnum frá því í vor hefði enginn svarað þeim auglýsingum. Einungis hafi komið nokkrar fyrirspurnir frá mönnum sem hvorki töluðu íslensku né ensku.