Ærslabelg fenginn nýr staður vegna sleggjukasts

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings ákvað á fundi sínum í dag að falla frá þeim áformum að ærslabelgur yrði staðsettur á íþróttasvæði við Vilhjálmsvöll eins og fyrirhugað var. Ástæða þess að fallið var frá þeim áformum er sú að sleggjukast er æft á svæðinu sem getur m.a. skapað hættu á ærslabelgnum.


Fyrr í sumar samþykkti umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings uppsetningu á ærslabelgjum á Egilsstöðum og Borgarfirði eystra. Stefnan var að setja ærslabelginn á Egilsstöðum innan skilgreinds íþróttasvæðis við Vilhjálmsvöll. Ungmennaráð Múlaþings og frjáls íþróttadeild Hattar gagnrýndu það staðarval vegna þess að æft er sleggjukast á svæðinu.


Á fundi ungmennaráðs Múlaþings í september kom fram að ráðið fagni uppsetningu ærslabelgsins en fyrirhuguð staðsetning væri vonbrigði. „Fyrirhuguð staðsetning er annars vegar hættuleg notendum belgsins vegna þeirrar staðreyndar að þar er t.a.m. æft sleggjukast. Hins vegar skerðir fyrirhugað leiksvæði kastsvæðið, sem m.a. íslandsmethafi í sleggjukasti unglinga notar. Ungmennaráð leggur til að staðsetning belgsins verði endurskoðuð af umhverfis- og framkvæmdaráði,“ segir í fundargerð ungmennaráðsins.


Umhverfis- og framkvæmdaráð tók mark á gagnrýni á staðarvalinu og verður nú fundinn nýr staður fyrir ærslabelginn. „Með hliðsjón af fram komnum athugasemdum ungmennaráðs og iðkenda hjá frjálsíþróttadeild Hattar samþykkir umhverfis- og framkvæmdaráð að falla frá áður áformaðri staðsetningu fyrir ærslabelg á Vilhjálmsvelli. Ráðið felur framkvæmda- og umhverfismálastjóra að kanna aðrar mögulegar staðsetningar og leita eftir tillögum frá ungmennaráði Múlaþings,“ segir í bókun ráðsins í dag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.