Áframhaldandi rok næsta sólarhringinn

Útlit er fyrir áframhaldandi storm á Austurlandi næsta sólarhringinn hið minnsta. Vonir eru um að veðrið fari að ganga niður upp úr hádegi á fimmtudag.

Veðurstofan hefur framlengt appelsínugular viðvaranir vegna hvassviðris og hríðar fram til klukkan fimm aðfararanótt fimmtudags. Þá taka við gular viðvaranir sem gilda til hádegis.

Katrín Agla Tómasdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að enn sé mikil óvissa í veðurspám þegar komið er fram á fimmtudag. Því sé erfitt að slá nokkru föstu en miðað við stöðuna nú sé útlit fyrir að fyrr lægi á Austurlandi heldur en útlit var fyrir í gær.

Óvissan er þó enn talsverð um hvar nákvæmlega vindstrengur, sem stefnur á Norðvesturland, lendir. Hann þurfi ekki að breyta mikið um stefnu til að núverandi spá fyrir Austurland versni aftur.

Öryggið í spám næsta sólarhringinn er öllu meiri. Appelsínugul viðvörun hefur nú verið í gildi í heilan sólarhring. Eftir mikið hvassviðri í nótt hefur á nokkrum stöðum heldur lægt eftir hádegið.

Katrín Agla segir áfram búist við norðvestan hvassviðri upp á 15-23 m/s með rigningu eða slyddu út við ströndina en snjókomu inn til landsins. Von er á að úrkoman verði mest á norðanverðu Austurlandi. Annars staðar getur þó snjóað mikið á stuttum tíma og þá er erfiðra að segja hvar.

Mögulegt er að heldur dragi úr vindi og úrkomu um tíma í fyrramálið en um hádegi bætir aftur í hvort tveggja. Áfram er útlit fyrir að hvassast verði syðst á Austfjörðum og von á snörpum strengjum fram eftir fimmtudegi.

Þannig hefur meðalvindhraði í Hamarsfirði verið yfir 20 m/s í dag með hviðum yfir 40 m/s. Þar mældist hviða upp á 57 m/s klukkan 3:30 í nótt.

Þrátt fyrir rokið hefur almennt verið rólegt hjá lögreglu og björgunarsveitum síðan í morgun. Á Seyðisfirði var þó kallað út til að hefta fok á trampólíni og fleiru lauslegu.

Ekki virðist líklegt að vegurinn milli Djúpavogs og Hafnar verði opnaður í dag. Möðrudalsöræfi verða lokuð til morguns, hið minnsta og það sama gildir um Vopnafjarðarheiði. Ófært er orðið til Borgarfjarðar og Mjóafjarðar.

Björgunarsveitin Gerpir í Neskaupstað hefti fok frá húsi í endurgerð í nótt. Mynd: Hlynur Sveinsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar