Afreksnemandi frá Austurlandi hlýtur styrk hjá Háskóla Íslands
„Ég er mjög ánægð og glöð með þennan heiður,“ segir Anna Karen Marínósdóttir í samtali við Austurgluggann en hún hlaut í gærdag styrk úr Afreks- og hvatningarsjóði Háskóla Íslands (HÍ) við hátíðlega athöfn. Anna Karen var eini nýneminn frá Austurlandi til að hljóta þennan styrk hjá HÍ Í ár.Anna Karen, sem er tvítug, mun stunda nám í landfræði við HÍ á komandi vetri. Fyrir utan að vera frábær nemandi er hún einnig afrekskona á sviði íþrótta, það er í blaki.
Aðspurð um hvort námið muni trufla íþróttirnar eða öfugt segir hún svo ekki vera. „Ég er hinsvegar flutt suður núna og mun leika með Þrótti í Reykjavík í vetur. Það verður því sama nafn á félaginu mínu en annað bæjarfélag,“ segir hún.
Anna Karen Marinósdóttir brautskráðist frá Verkmenntaskóla Austurlands með ágætiseinkunn í vor og hlaut ýmsar viðurkenningar við það tilefni, m.a. Menntaverðlaun Háskóla Íslands.
Hún á að baki fjölmarga leiki með yngri landsliðum Íslands í blaki og komst í úrtakshóp A-landsliðs Íslands í greininni aðeins 17 ára gömul. Anna varð Íslandsmeistari með Þrótti Neskaupstað árið 2018 en auk þess lét hún til sín taka í félagsmálum í menntaskóla.
Þegar Anna Karen er spurð um afhverju hún valdi landfræði sem námsgrein segir hún einfaldlega að hún vilji bjarga jörðinni. „Ég eins og margir hef áhyggjur af umhverfi jarðarinnar og hlýnuninni sem nú er í gangi,“ segir Anna Karen. „Þetta nám gefur mér tækifæri til þess að kynna mér þau málefni, og fleiri, nánar.“
Alls hlutu fjörutíu og einn nýnemi í Háskóla Íslands, úr 19 framhaldsskólum víðs vegar af landinu, styrk úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta HÍ . Um metfjölda styrkþega er að ræða en þetta var í þrettánda sinn sem styrkjum er úthlutað úr sjóðnum.
Í tilkynningu frá HÍ segir að styrkþegar eiga það sameiginlegt að hafa náð framúrskarandi árangri á stúdentsprófi og innritað sig til náms við skólann í haust. Við mat á styrkþegum er þó ekki einungis horft til árangurs þeirra á stúdentsprófi heldur einnig annarra þátta eins og virkni í félagsstörfum í framhaldsskóla og árangurs á öðrum sviðum, til dæmis í listum eða íþróttum.
Þá hljóta einnig styrk nýnemar sem sýnt hafa sérstakar framfarir í námi eða góðan námsárangur þrátt fyrir erfiðar aðstæður.
Á myndinni sést Anna Karen ásamt Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands. Kristinn Ingvarsson tók myndina.