Afturkallar gjafaloforð til Ríkharðshúss

Ásdís Elísabet Ríkharðsdóttir hefur afturkallað gjafaloforð sitt til Ríkharðshúss á Djúpavogi. Málið hefur verið til umræðu í byggðaráði Múlaþings og í heimastjórn Djúpavogs í síðustu og þessari viku.


Ásdís Elísabet er eina eftirlifandi barn Ríkharðs Jónssonar myndhöggvara orðin 99 ára gömul. Í umfjöllun Fréttablaðsins í morgun um málið kemur m.a. fram um er að ræða afturköllun á arfi en áður hafði fjölskyldan gefið Ríkharðshúsi yfir 800 muni sem voru í eigu Ríkharðs. Fyrir utan verk eftir Ríkharð er einnig um að ræða muni eins og ljósmyndir, húsgögn og verkfæri hans.

Á fundi byggðaráðs í upphafi mánaðarins var lögð fram yfirlýsing frá Ásdísi Elísabetu um afturköllun gjafaloforðsins. Þar var málinu vísað til heimastjórnar Djúpavogs auk þess að forseta sveitarstjórnar og sveitarstjóra var falið að taka upp viðræður við Ásdísi og lögmann hennar.

Gauti Jóhannesson forseti sveitarstjórnar mætti á fundi heimastjórnar s.l. mánudag og gerði grein fyrir stöðu málsins. Á þeim fundi kom fram að heimastjórn leggur á það áherslu að stjórn Ríkarðshús og formaður heimastjórnar eigi aðild að fyrrgreindum viðræðum.

Ríkharðshús, sem er safn með verkum myndhöggvarans, er til húsa í Löngubúð á Djúpavogi. Sá húsakostur hentar ekki undir safnið, Ekki er hægt að sýna nema brot af munum safnsins í einu og geymslan undir munina í lofti Löngubúðar er ófullnægjandi að því er segir í Fréttablaðinu. Í blaðinu er rætt við Guðna Jóhannesson sem segir m.a. að verið sé að vinna að lausn á húsnæðisvanda safnsins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.