Ágangur við Stuðlagil tefur framkvæmdir

Mikill ágangur ferðamanna við Stuðlagil á Jökuldal hefur tafið framkvæmdir í sumar, meðal annars lagningu göngustígar sem á að auðvelda fólki aðgang að gilinu.

Marteinn Óli Aðalsteinsson bóndi á Klausturseli segir í samtali við Austurfrétt að þessi mikli ágangur hafi tafið framkvæmdir sem áttu að verða í sumar, aðallega lagningu fyrrgreinds göngustígs. Svæðið hafi einfaldlega ekki verið tilbúið undir allan þennan fjölda ferðamanna.

„Búskapurinn í vor hafði forgang hjá mér en síðan gerðist það að allir þessir innlendu ferðamenn fóru að hópast hingað og þá var ekki hægt að standa í þessu,“ segir Marteinn Óli. „Við stefnum hinsvegar að því að klára göngustíginn fyrir haustið þannig að hann verði tilbúinn fyrir næsta sumar.“

Marteinn Óli segir að sá „ofboðslegi fjöldi“ af ferðamönnum sem komið hefur í sumar hafi komið þeim í opna skjöldu. „Það er eins og allir Íslendingar og frændur þeirra líka hafi ákveðið að koma í heimsókn þetta árið,“ segir hann.

Fram kemur í máli Marteins Óla að fjöldinn hafi ekki skapað nein vandræði að ráði það sem af er og það sé í raun ánægjulegt að heyra í ferðamönnum lýsa upplifun sinni af því að heimsækja gilið.  „Ferðamenn leggja á sig að ganga tíu kílómetra til að upplifa gilið, það er fimm kílómetra hvora leið sem mér finnst nokkuð ánægjulegt,“ segir Marteinn Óli.

Mynd: María Hjálmarsdóttir


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.