Áhugi bænda lykilatriði í hvernig til tekst í baráttunni við riðu
Síðustu vikur hefur komið í heiminn ný kynslóð lamba sem bera með sér gen sem eiga að vera verndandi gegn riðu. Þórdís Þórarinsdóttir, bóndi á Bustarfelli í Vopnafirði og ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), er á meðal þeirra hafa unnið að áætlunum um hvernig gera megi íslenska sauðfjárstofninn ónæman fyrir sjúkdóminum. Það byggir á ræktun á verndandi og mögulega verndandi arfgerðum sem hafa fundist í stofninum. Hún segir hægt að gera það hratt og vel.Straumhvörf urðu í íslenskri sauðfjárrækt þegar genasamsætan ARR fannst í kindum á Þernunesi í Reyðarfirði í byrjun árs 2022. Hún er viðurkennd á alþjóðavísu sem verndandi gegn sjúkdóminum. Þar með er hægt að þyrma þeim hluta fjárstofns, sem ber genasamsætuna, ef riða kemur upp. Til þessa hefur algjör niðurskurður og fjárleysi í ákveðinn tíma verið eina úrræðið.
Í fyrra bættust við nýjar rannsóknir sem sýna að fleiri genabreytur í íslensku sauðfé geta veitt vernd gegn riðunni.
„Hver gripur erfir tvær genasamsætur, eina frá föður og aðra frá móður. Á hverri genasamsætu er aðeins að finna einn breytileika. Villigerðin, sem áður var kölluð hlutlaus, ber engan breytileika. Hún er algengasta genasamsætan í íslensku fé. Nú er hún flokkuð sem næm gegn riðusmiti, ásamt VRQ-samsætunni sem telst mjög næm enda hefur hún lengi verið kölluð áhættuarfgerðin.
Genasamsætur sem nú teljast mögulega verndandi í íslensku sauðfé í ljósi nýrra rannsókna eru AHQ, C151 og T137. AHQ er töluvert algeng hérlendis. Framleiðsluárið 2023 var tíðni AHQ-genasamsætunnar 8% í stofninum. C151 og T137 eru sjaldgæfari. N138 flokkast nú sem lítið næm en tíðni hennar í stofninum er um 5%. T137-genasamsætan hefur verið rannsökuð sem mögulega verndandi í sarda-sauðfé á Ítalíu en er ekki alþjóðlega viðurkennd. Lykilatriði er að hérlendis hefur aldrei fundist riða í kind sem ekki var ekki með ARQ eða VRQ,“ útskýrir Þórdís.
Matvælaráðherra kynnti í maí drög að landsáætlun um útrýmingu riðu sem byggir á vinnu Þórdísar og hennar samstarfsfólks. Markmið áætlunarinnar er að útrýma veikinni á næstu 20 árum með ræktun stofnsins, það er að þá beri minnst 75% stofnsins verndandi genasamsætur. Þórdís segir þrjár megin forsendur fyrir að markmiðið náist.
„Í fyrsta lagi er það notkun sæðinga. Árið 2022 hófst innleiðing ARR í stofninn þegar þrír hrútar frá Þernunesi með ARR-genasamsætuna voru í boði á sæðingastöð. Í fyrra var í boði sæði úr 15 hrútum með ARR, þar af einum hrúti sem er arfhreinn en öll hans afkvæmi verða arfberar ARR. Einnig verða í boði hrútar sem bera AHQ, C151, T137 og N138.
Í öðru lagi eru það markvissar arfgerðargreiningar til að fylgja eftir notkun arfblendinna hrúta til að passa að afkvæmi með réttu genasamsæturnar séu sett á. Að lágmarki ætti að arfgerðargreina alla ásetningshrúta. Þriðji lykilþátturinn er áhugi og þátttaka bænda í þessu viðamikla verkefni.“
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.