Ákváðum að kalla út þyrluna þegar við sáum aðstæður

Sævar Þór Skoradal gjaldkeri björgunarsveitarinnar Brimrún á Eskifirði segir að þegar þeir sáu aðstæðurnar nálægt toppi Hólmatinds s.l. laugardag ákváðu þeir að kalla til þyrlu Landhelgisgæslunnar. Sævar Þór stjórnaði aðgerðum þegar manni var bjargað úr sjálfheldu á tindinum.

„Maðurinn var fastur í klettabelti í gili nálægt toppi Hólmatinds og við sáum strax að það myndi taka töluverðan tíma að síga niður til hans,“ segir Sævar Þór. „Því ákváðum við að kalla út þyrluna þar sem sá möguleiki var í boði í stað þess að setja okkur í óþarfa áhættu.“

Maðurinn sem um ræðir gat látið vita af sér í klettabeltinu síðdegis og gat einnig sent frá sér hnit sem sýndi nokkrun veginn hvar hann var. „Þrátt fyrir að hafa hnitið var erfitt að koma auga á hann. Þetta var eins og að leita að korni í fjallinu,“ segir Sævar Þór.

Alls fóru 14 manns í þremur hópum frá Brimrúnu, tveir hópar lögðu á fjallið Eskifjarðarmegin en einn hópur fór að ofanverðu á tindinn. Alls tók það hópana þrjá nær tvo tíma að komast að manninum. Síðan var haft samband við Landhelgisgæsluna á sjöunda tímanum um kvöldið.

Aðspurður segir Sævar Þór að björgunarsveitarmennirnir hafi aldrei verið í hættu á fjallinu. „Þetta gekk allt saman mjög vel hjá okkur enda aðstæður með besta móti, glampandi sól og lítill vindur,“ segir hann.

Sævar Þór tekur einnig fram að maðurinn eigi hrós skilið fyrir að stoppa þar sem hann var kominn í stað þess að reyna sjálfur að bjarga sér úr þeim aðstæðum sem hann var í. „Hann hefði getað lent í verulegri hættu við að reyna slíkt,“ segir Sævar Þór.

Eins og fram hefur komið í fréttum var búið að bjarga manninum laust fyrir klukkan átta um kvöldið. Eftir að þyrlan, TF-EIR, hafði komið manninum niður á Eskifjörð fór hún aftur á fjallið og sótti hópinn sem fór að ofanverðu en hinir tveir hóparnir komu sér sjálfir niður til byggða.

Mynd: Landhelgisgæslan

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar