„Aldrei búist við að allir væru fyllilega meðvitaðir á fyrsta degi“

Skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu segir að ekki hafi verið hægt að ætlast til þess að allir þeir ferðamenn sem kæmu til landsins í dag væru með nýjar reglur sóttvarnayfirvalda á hreinu. Hann segir íbúa á Austurlandi hafa verið vakandi fyrir ferðum farþega úr Norrænu í morgun.

Eins og Austurfrétt greindi frá fylgdi hópur farþega úr Norrænu ekki fyrirmælum um að halda beint í sóttkví heldur fóru í verslun Nettó á Egilsstöðum. Starfsfólk þar stöðvaði hópinn af og kallaði til lögreglu.

Í tilkynningu lögreglu segir að örfáir af 190 farþegum ferjunnar hafi ekki skilið fyrirmæli til fulls en þau hafi verið ítrekuð fyrir fólkinu sem hafi virst taka þau til sín.

„Íbúar voru vakandi fyrir því hvort túristar væru að fara beint í Bónus og létu yfirvöld vita,“ sagði Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu sem ættaður er frá Hallormsstað, spurður út í atvikið á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Páll skýrði þar frá því að töluvert færri ferðamenn hefðu komið til landsins eftir að nýjar reglur tóku gildi í gær, aðeins hefðu um 800 af 2600 flugfarþegum komið til Keflavíkur og um 190 af 800 farþegum Norrænu.

Reglurnar gera ráð fyrir að allir sem til landsins koma dvelji í 5-6 daga í sóttkví áður en þeir mega vera innan um annað fólk. Páll sagði að alltaf hafi verið viðbúið að einhverjir áttuðu sig ekki á að reglunum hefði verið breytt. „Það var aldrei við því að búast að allir væru fyllilega meðvitaðir um stöðuna á fyrsta degi.“

Margt spilaði þar inn í, meðal annars tungumálaörðugleikar en unnið væri að því að þýða leiðbeiningar á fleiri tungumál. Þá gengi misvel að ná í sérstaklega flugfarþega en skerpt hefur verið á upplýsingaskyldu flugfélaga.

Þá sagði hann starfsfólk í sýnatöku og lögreglu á landamærunum reyna að koma skilaboðunum til skila og jafnvel bent á gistimöguleika sem uppfylltu skilyrði sóttkvíar. Páll hrósaði þessu fólki fyrir að leggja meira á sig en því bæri skylda til.

Þórólfur Guðnason og Páll Þórhallsson. Mynd: Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar