Allar björgunarsveitir á Austurlandi kallaðar út
Mikið var að gera hjá björgunarsveitum Austurlands í gærkvöldi og voru þær allar kallaðar út vegna göngumanns sem lenti í sjálfheldu við Hólmatind í Eskifirði. Tóku nær 30 björgunarsveitarmenn þátt í aðgerðinni. Að lokum þurfti að kalla út þyrlu Landhelgisgæslunnar til að bjarga manninum.
Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni segir að áhöfnin á TF-EIR hafi bjargað manninum um klukkan átta um kvöldið.
„TF-EIR tók á loft frá Reykjavíkurflugvelli á sjöunda tímanum í kvöld og var komin á svæðið þar sem maðurinn var klukkan 19:53. Sex mínútum síðar var hann kominn um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar og var við góða heilsu,“ segir í tilkyningunni en flogið var með manninn til Eskifjarðar.
Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug að því búnu aftur að Hólmatindi og sótti þangað björgunarsveitarfólk sem tók þátt í aðgerðum.
Fyrr um daginn voru björgunarsveitir á Borgarfirði eystra og Seyðisfirði kallaðar út vegna slasaðrar göngukonu í Loðmundarfirði. Nokkur spotti var að konunni og var hún síðan flutt með björgunarbát til Seyðisfjarðar til aðhlynningar og var komin þangað að ganga fimm.
Mynd: Landhelgisgæslan