„Allt sem er án leyfa er ekki gott“

Austfirskir ferðaþjónustuaðilar fagna hertu eftirliti með heimagistingu, meðal annars í ljósi nýrra talna um að óskráð heimagisting hafi hvergi aukist jafn mikið og í fjórðungnum. Formaður Ferðamálasamtaka Austurlands segir að starfsemi án leyfa komi niður á þeim sem fari eftir reglum.

Í nýjum tölum frá Hagstofunni, sem vefurinn Túristi tók saman, kemur fram að gisting utan hefðbundinnar talningar hafi hvergi aukist meira en á Austurlandi milli áranna 2017 og 2018 á tímabilinu frá janúar til maí.

Áætlun Hagstofunnar gerir ráð fyrir að gistinætur í slíku rými hafi verið 14.986 árið 2017 en 23.607 á þessu ári. Það er aukning um 57,5%. Á sama tíma fækkaði hótelnóttum í fjórðungnum um 3%. Í frétt Túrista er tekið fram að þótt heimagistingin sé óflokkuð sé hluti hennar með leyfi. Það hlutfall sé þó trúlega hátt.

„Allt sem er án leyfa er ekki gott og þetta hefur áhrif á þá sem eru í heilsársrekstri með öll leyfi í gildi,“ segir Díana Mjöll Sveinsdóttir, formaður Ferðamálasamtaka Austurlands í nýjasta tölublaði Austurgluggans. Hún bendir á að ekki sé nýtt að farið sé fram af kappi fremur en forsjá í uppsveiflu, eins og verið hefur í ferðaþjónustunni og fleiri starfi í greininni án leyfa en gistiaðilar.

Fleiri skrá gistingu eftir tilkynningu um eftirlit

Ráðherra ferðamála tilkynnti í lok júní að lagt yrði aukið fé til eftirlits með óskráðri gistingu. Það fé rennur til Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu sem auglýsti eftir átta starfsmönnum í átaksverkefnið. Umsóknarfrestur rann út í byrjun síðustu viku og samkvæmt upplýsingum frá embættinu er vonast eftir að gengið verði frá ráðningum sem fyrst.

„Ferðaþjónustan hefur talað um að gera þurfi gangskör í eftirlitinu og því fögnum við þessari fjárveitingu. Við vonum að hún beri árangur,“ segir Díana Mjöll.

Þær upplýsingar fengust enn fremur hjá sýslumannsembættinu að þegar hafi borist milli 400-500 ábendingar um óskráða eða ólöglega skammtímaleigu á landsvísu. Málin bíði efnislegrar meðferðar en ætla megi að hluta þeirra verði lokið með stjórnvaldssektum. Þá er embættið í samstarfi við skattayfirvöld við eftirlitið.

Upplýsingar um heimagistingu, leyfi í gildi, sem og ábendingum um mögulega óskráða gistingu er hægt að nálgast eða koma á framfæri í gegnum vefinn heimagisting.is. Frá því að tilkynnt var um aukið eftirlit með heimagistingu hefur skráningum hjá embættinu fjölgað töluvert.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.