Alþjóðleg ráðstefna um verndun villta laxins á Vopnafirði

Six Rivers Iceland heldur eftir viku árlega ráðstefnu sína um þær hættur sem steðja að villta Atlantshafslaxinum og ráð gegn þeim í Miklagarði á Vopnafirði. Á ráðstefnunni ræða alþjóðlegir sérfræðingar um stöðuna.

Six Rivers, sem oftast er tengt við stofnanda sinn Jim Ratcliffe, hefur áður haldið þrjár ráðstefnur í Reykjavík en heldur í fyrsta sinn ráðstefnu á Vopnafirði. Yfirskrift hennar er: „Verndun sem nær yfir vatnasviðið allt.“

Í tilkynningu segir að fjallað verði um ástand villta íslenska laxastofnsins og nýjar hættur sem að honum steðji. Rætt verðu um verndaraðgerðir hérlendis í alþjóðlegu samhengi.

Af umfjöllunarefnum má nefna: „Spegla íslenskir laxastofnar hnignunina á heimsvísu?“, „Verndun sem nær yfir vatnasvið hjá Six Rivers Iceland og í Norðvestur-Skotlandi“ og „Hver er reynsla Norðmanna af nýjum hættum sem að villta laxinum steðja, frá sjókvíaeldi og hnúðlaxi?“.

Laxinn þarf vistkerfi


Á meðal þeirra sem til máls taka eru sérfræðingar frá Hafrannsóknastofnun, Norsku náttúrufræðistofnuninni (NINA), Norska vísinda- og tækniháskólanum (NTNU), og umhverfissamtökunum Atlantic Salmon Trust, auk sérfræðinga Six Rivers Iceland.

„Ekki nægir að einblína bara á laxinn sjálfan, því til að hann dafni þarf heilbrigt vistkerfi. Á þessu er vaxandi skilningur. Six Rivers Iceland kynnir á ráðstefnunni á Vopnafirði áætlanir sínar um aðgerðir til að efla vistkerfi laxins. Eins verður fjallað verður um nýjar ógnir sem að honum steðja og leiðir til að snúa við hnignun stofnsins,“ er haft eftir Dr. Rasmus Lauridsen, rannsóknastjóri Six Rivers Iceland.

Svæði sem hentar til rannsókna


Six Rivers dregur nafn sitt af þeim ám þar sem Six Rivers er með starfsemi: Hofsá, Selá og Sunnudalsá í Vopnafirði, Miðfjarðará í Bakkafirði og Hafralónsá í Þistilfirði. Í tilkynningunni er sagt frá því að félagið leggi mikla fjármuni í bæði beinar verndaraðgerðir og langtímarannsóknir þannig að Norðausturland verði varið sem eitt af síðustu svæðunum þar sem Atlantshafslaxinn dafnar.

Vísindamenn Six Rivers vonast til að uppgötva hvernig vernda megi laxinn. Árnar og vatnasvæði þeirra eru óspilltar og henta því vel til rannsókna. Vonast er til að niðurstöður þeirra geti snúið við hnignun laxins á heimsvísu, en áætlað er að stofninn sé kominn niður í fjórðung af því sem hann var á áttunda áratugnum.

Vonast til að stjórnvöld styðji við aðgerðir til að vernda laxinn


„Tilvist Atlantshafslaxins er ógnað. Með því að leiða saman fremstu sérfræðinga heims á sviði verndunar sem vinna að sama marki ætlum við að deila þekkingu og úrræðum til að grípa inn í hnignun laxins áður en það verður um seinan. Six Rivers Iceland var stofnað með það í huga að vinnan myndi halda áfram árum saman með áframhaldandi samstarfi – en meira þarf til að koma,“ segir Ratcliffe.

„Six Rivers Iceland er langtímaverkefni sem ætlað er að hafa til framtíðar jákvæð áhrif á bæði svæði og samfélag. Vinnan hefur farið vel af stað en vitanlega er mun meira sem gera þarf. Okkar von er því að stjórnvöld víðast hvar bregðist við þeim ógnunum sem að laxinum steðja og leggist á árar með okkur,“ segir Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Six Rivers.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar