Annar áfangi Mjóeyrarhafnar og viðbygging við leikskóla stærstu verkefnin

Annar áfangi Mjóeyrarhafnar og viðbygging á leikskólanum Lyngholti á Reyðarfirði verða stærstu framkvæmdir sveitarfélagsins Fjarðabyggðar á næsta ári. Gert er ráð fyrir að afgangur af rekstri sveitarfélagsins á næsta ári nemi 432 milljónum króna.

Þetta kemur fram í fjárhagsáætlun ársins 2018 sem samþykkt var í bæjarstjórn fyrir skemmstu. Áætlaðar tekjur eru tæpar 6,7 milljarðar en kostnaður tæpir 5,9 milljarðar. Mest fer í laun, tæpir 3,4 milljarðar.

Gert er ráð fyrir að handbært fé frá rekstri verði 1,1 milljarður til að standa straum af afborgunum lána og fjárfestingum. Sem fyrr segir er reiknað með 432 milljóna afangi, þar af 123 milljónum í A-hluta en þumalfingurreglan er að í þeim hluta séu lögboðin verkefni sveitarfélagsins fjármögnuð með skatttekjum.

Gert er ráð fyrir framkvæmdum upp á 801 milljón króna á vegum sveitarfélagsins. Þar af eru framkvæmdir hafnarsjóðs upp á 356 milljónir. Stærsta verkið er annar áfangi Mjóeyrarhafnar næsta sumar upp á 130 milljónir. Þá má nefna að áætlað er að framkvæma fyrir 85 í höfninni á Eskifirði og 74 á Norðfirði.

Stækkun leikskólans á Reyðarfirði er talin kosta 107 milljónir. Þá verður unnið við skólamiðstöðina á Fáskrúðsfirði og Nesskóla fyrir 35 milljónir á hvorum stað.

55 milljónum verður varið til gatnaframkvæmda. Stærsta verkefnið er frágangur Skólavegar á Fáskrúðsfirði.

Þá er ætlað að ráðast í fráveituframkvæmdir upp á 71 milljón og fjárfesta í niðurdælingu á vegum hitaveitu Fjarðabyggðar fyrir 29 milljónir. Farið verður yfir niðurdælingarferlið og ástand niðurdælingarholna skoðað.

Stefnt er að því að selja gömlu Hulduhlíð á Eskifirði og Kirkjumel á Norðfirði sem áður hýsti skóla og félagsheimili.

Gert er ráð fyrir að skuldaviðmið sveitarfélagsins verði komið niður í 137,7% í lok næsta árs, en hámarkið er 150%.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.