Ástæða til bjartsýni á Seyðisfirði á næstu árum

Bæjarstjóri Seyðisfjarðarkaupstaðar segir ástæðu til bjartsýni í sveitarfélaginu á næstu árum þar sem tiltekt í fjármálum sveitarfélagsins sé að skila árangri. Eins sé tekið eftir bænum á heimsvísu og það sé að þakka mikilli vinnu.

Þetta kemur fram í áramótaávarpi bæjarstjórans Vilhjálms Jónssonar sem hann flutti við áramótabrennu Seyðfirðinga á gamlárskvöld.

Vilhjálmur kom víða við í ávarpinu, ræddi tíðarfarið og sumar var svo vætusamt að „knattspyrnuliðið náði með naumindum heimaleik á Garðarsvelli allt sumarið.“ Mikið vatnsveður gekk yfir í lok júní sem olli talsverðum skemmdum.

Vilhjálmur notaði tækifærið til að þakka starfsmönnum og íbúum fyrir snör handtök við að koma í veg fyrir stærra tjón. Hreinsun og viðgerðum er ekki enn lokið en sérstakt framlag fékkst úr ríkissjóði fyrir þeim.

Vilhjálmur sagði annars að rekstur kaupstaðarins hefði gengið vel á árinu og stefnt að því að nýta þann árangur sem náðst hefur síðustu ár til að bæta í á næsta ár. „Árangurinn er farinn að skila sér og því ástæða til bjartsýni á næstu árum.“

Bæjarstjórinn sagði atvinnustig í bænum hafa verið gott og hrósaði rekstri félagsheimilisins Herðubreiðar í höndum nýrra aðila. Gert er ráð fyrir að hefja vinnu við endurbætur á ytra byrði hússins á næsta ári.

Tekið eftir einstakri uppbyggingu samfélagsins

Þá kom Vilhjálmur inn á byggingu áningarstaðar við minnisvarðann við Neðri-Staf sem hafi verið kominn tími á vegna aukinnar aðsóknar. Ásóknin er hluti af sívaxandi áhuga á Seyðisfirði meðal ferðamanna.

„Í dag fer ekki hjá því að eftir einstakri uppbyggingu samfélagsins á Seyðisfirði er tekið. Fjölbreytt atvinnulíf, mikill ferðamannastraumur, margvísleg þjónusta, öflugt menningar og listalíf og mikið félagsstarf og árangur í íþróttum svo eitthvað sé nefnt.

Það er ekki bara á landsvísu heldur á heimsvísu sem staðurinn er rómaður fyrir náttúrufegurð og einstakt mannlíf og umhverfi. Einkar jákvæð umfjöllun erlendra blaðamanna í víðlesnum fjölmiðlum á borð við Vogue og nú síðast í Marie Claire um staðinn staðfestir þetta svo ekki verður um villst.

Ekki þarf að fjölyrða um hversu ánægðir ferðamenn sem hingað koma eru og þá jákvæðu mynd sem þeir draga upp á samskiptamiðlum.

Þessu hefur verið áorkað með vinnusemi þrautseigju og trú á möguleika til að byggja upp og sækja fram. Ekkert af þessu var sjálfgefið og því mikilvægt að hlúa áfram að til enn frekari árangurs.“

Tíðindi í gangamálum í byrjun árs

Vilhjálmur sagði húsnæðismál hafa verið í brennidepli þar sem skortur á íbúðarhúsnæði hafi ágerst. Bæjarstjórn hefur samþykkt fyrstu drög að húsnæðisáætlun auk þess sem unnið er að sameiginlegri áætlun fyrir allt Austurland. „Með þessum áætlunum má gera ráð fyrir að forsendur skapist fyrir uppbyggingu virks húsnæðismarkaðar.“

Í upphafi nýs árs bíða Seyðfirðingar fregna af samgöngumálum. Hópur sem samgöngu- og sveitastjórnarráðherra setti saman síðsumars til að vinna úttekt á gangakostum til Seyðisfjarðar á að skila niðurstöðum sínum í febrúar. Þá sagði Vilhjálmur að jarðfræðiskýrsla Vegagerðarinnar væri væntanleg fljótlega.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.