„Aukin meðvitund er fyrsta skrefið að breytingum“

Gestir á lokahófi verkefnisins „Austfirskt fullveldi – sjálfbært fullveldi“ voru hvattir til þess að skrifa miða með hugmyndum að því hvernig hægt væri að gera heiminn betri í daglegu lífi í anda heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.


Lokahófið var haldið í Menntaskólanum á Egilsstöðum á aldarafmæli lýðveldisins þann 1. desember síðastliðinn. Þar tóku átta austfirskar mennta-, menningar-og rannsóknastofnanir sig saman til að skoða á nýstárlegan hátt austfirskt fullveldi, sjálfbærni og tengslin þar á milli.

Guðrún Schmidt tók þátt í verkefninu fyrir hönd Landgræðslunnar sem ráðgjafi um sjálfbæra þróun.

„Í verkefninu voru skoðuð tengsl fullveldis og sjálfbærrar þróunar á Austurlandi fyrr og nú með hliðsjón af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Meðal afurða verkefnisins voru fjórar sýningar sem settar voru upp í söfnum á Austurlandi í sumar og voru nú til sýnis á fullveldishátíðinni í Menntaskólanum.

Ég var svo beðin um að koma með veggspjald um meistaraverkefnið mitt sem tengist jarðvegsvernd, sjálfbærri þróun og menntun og hvort ég væri með fleiri hugmyndir fyrir lokahófið. Þá datt mér í hug að biðja gesti og gangandi að skrifa á miða hvað þeim dytti í hug að þeir gætu gert í sínu daglegu lífi til þess að gera heiminn að betri stað í anda heimsmarkmiðanna Sameinuðu þjóðanna. Miðarnir voru síðan hengdar upp á tré,“ segir Guðrún.

Guðrún segir að heimurinn kalli eftir breytingum á lifnaðarháttum mannkynsins. „Við þurfum öll að taka þátt í því og þess vegna er svo mikilvægt að við hugleiðum hverju við getum breytt í okkar daglega lífi.“

Töluverð vitundarvakning í samfélaginu
Fjölmargar góðar hugmyndir rötuðu á blað og voru hengdar á tréð. „Það er mikill samhljómur í hugmyndunum og margar þeirra snérust um að minnka neyslu og að passa upp á að vörurnar sem við kaupum séu helst framleiddar í nærumhverfinu og á umhverfisvænan og sanngjarnan hátt. Einnig komu hugmyndir um að ganga og hjóla meira, minnka bílanotkun og flugferðir. Flokkun á rusli og minnkun á plastnotkun komst einnig á blað, sem og mikilvægi þess að bera virðingu fyrir náunganum, vera góð við hvert annað og brosa. Ég á eftir að taka þetta betur saman en tréð er ennþá staðsett í skólanum þannig að nemendur og kennarar geta sótt sér innblástur af hugmyndunum og einnig bætt fleirum við,“ segir Guðrún.

Guðrún segir að samkvæmt þessu sé töluverð vitundavakning í samfélaginu. „Við virðumst vera meðvituð um margar góðar leiðar til þess að breyta okkar lifnaðarháttum í átt að sjálfbærri þróun, sem er alveg frábært. Aukin meðvitund er fyrsta skrefið að breytingum en því miður hafa rannsóknir sýnt að hún leiði þó ekki endilega til breyttra lifnaðarhátta. Við í hinum vestræna heimi erum svo vön okkar núverandi lífsstíl þannig að góður vilji í átt að sjálfbærri þróunar hefur oft tilhneigingu til að kafna í neysluhyggjunni.

Rannsóknir sýna þó að þeir sem eru virkir í breytingum lifnaðarhátta aðhyllast oft önnur gildi en efnishyggju, en það er einmitt það sem við þurfum að vinna með; að breyta gildum okkar og viðmiðum. Í grófum dráttum má segja að þær hugmyndir sem komnar eru á tréið tengist aðallega: nægjusemi, þakklæti, kærleika, virðingu og samkennd. Að auka vægi þessara gilda í okkar daglegu lífi er gott veganesti fyrir okkur til að vísa áfram veginn í breytingum á lifnaðarháttum hvers og eins í átt að sjálfbærri þróun.“

Hugmynd fyrir vinnustaði?
Guðrún segir að gaman væri að sjá slík tré á fleiri stöðum, til dæmis vinnustöðum og fleiri skólum. „Það væri frábært ef fleiri væru hvattir til þess að skrifa markmið að breytingum í daglegu lífi til þess að stuðla að betri heimi. Hægt væri að afmarka ákveðið tímabil, til dæmis að eitthvað nýtt væri skrifað í hverjum mánuði, það sem hver og einn vildi einbeita sér að þann mánuðinn. Notum styrkinn sem býr í svona litlu samfélagi til þess að hjálpast að við góðar breytingar og búum til ákveðna stemmingu í kringum þær.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar