Austurlistinn kallar eftir samstjórn í nýju sveitarfélagi

Oddviti Austurlistans segir Sjálfstæðisflokkinn hundsa vilja kjósenda í nýju, sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi með að hefja viðræður við Framsóknarflokkinn um myndun meirihluta. Austurlistinn telur rétt að látið hefði verið reyna á samstjórn allra framboða til að mæta stórum verkefnum sem framundan eru.

„Ég fékk símtal frá Gauta í gærkvöldi þar sem hann tilkynnti mér að til stæði að hefja viðræður við Framsóknarflokkinn. Ég lýsti djúpum vonbrigðum með það,“ segir Hildur Þórisdóttir, oddviti Austurlistans.

Sjálfstæðisflokkurinn fékk 29% atkvæða og 4 fulltrúa í kosningunum síðasta laugardag, Austurlistinn 27% og 3 fulltrúa en Framsóknarflokkurinn 2 fulltrúa og 19% atkvæða. Þá fengu Vinstrihreyfingin grænt framboð og Miðflokkurinn sinn fulltrúann hvorn.

Telur vilja kjósenda hundsaðan

Þessi úrslit þýða að tveggja flokka meirihluti yrði ekki myndaður án Sjálfstæðisflokks sem gat valið um hvort það yrði gert með Framsóknarflokki eða Austurlista. Sem fyrr segir hefur Sjálfstæðisflokkur nú hafið viðræður við Framsóknarflokkinn, Austurlistanum til mikilla vonbrigða.

„Það eru engin sérstök rök fyrir þessum viðræðum við Framsóknarflokkinn. Afstaða kjósenda var skýr, það munaði aðeins hársbreidd á okkur og Sjálfstæðisflokknum og þessi tvö framboð gætu myndað sterkan meirihluta.

Ef þessi meirihluti verður til þá hefur hann ekki bara innan við helming atkvæða á bakvið sig heldur verður aðeins ein kona í meirihluta sem er verulegt áhyggjuefni. Það hafa ekki komið fram nein efnisleg rök fyrir að hundsa niðurstöður kosninganna,“ segir Hildur.

Samstjórn skynsamleg fyrir stór verkefni

Í hádeginu var tilkynnt um breytingar í meirihlutasamstarfinu á Akureyri á þann hátt að öll framboðin í bæjarstjórninni munu framvegis taka þátt í því. Það er gert til að mæta afar erfiðri fjárhagsstöðu sveitarfélagsins.

Hildur hefði viljað láta reyna á svipaða leið eystra. „Hér eru líka gríðarlega stór verkefni framundan, bæði út af Covid-faraldrinum en líka í sameiningunni. Mér finnst að við ættum að horfa norður því sú nálgun er skynsamleg.

Þessi umræða hefur átt sér stað innan okkar raða hjá Austurlistanum í dag í kjölfar tíðindanna frá Akureyri. Ég er ekki búin að tala við hina flokkana en er að fara í að heyra í þeim.“

Ekki látið reyna á þriggja flokka samstarf

Annar meirihlutakostur í nýja sveitarfélaginu hefði verið að Austurlisti og Framsóknarflokkur fengju annað hvort VG eða miðflokkinn með sér. Aðspurð segir Hildur að ekki hafi neitt verið látið reyna á það.

„Það voru engar slíkar þreifingar. Við töldum vilja kjósenda skýran, þeir vildu Sjálfstæðisflokk og Austurlista og á það bæri að hlusta.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.