Bæjarráð Seyðisfjarðar krefst aðgerða í snjóflóðavörum
Bæjarráð Seyðisfjarðar krefst þess að ofanflóðasjóður verði fjármagnaður að fullu og gert kleift að uppfylla skyldur sínar. Þetta kemur fram í bókun bæjarráðsins á síðasta fundi þess.Í bókunni segir að bæjarráð minnir enn og aftur á að Seyðisfjörður er einn þeirra staða sem kallað hefur eftir vörnum bæði fyrir snjó- og aurflóðum. Sérfræðingar hafa rannsakað og skilað skýrslum, forhönnun varnargarða liggur fyrir en fjármagnið vantar.
Jafnfram kemur fram að bæjarráðið taki undir harðorða bókun Samband íslenskra sveitarfélaga um ofanflóðavarnir. Í þeirri bókun segir m.a. að stjórn sambandsins átelur að ekki hafi verið staðið við loforðin sem þjóðinni voru gefin um uppbyggingu ofanflóðavarna fyrir aldarfjórðungi, eftir að snjóflóðin féllu í Súðavík og Flateyri.
„Enn standa ólokin brýn verkefni á hættusvæðum þar sem mannslíf eru í húfi. Að óbreyttu verður þessum framkvæmdum ekki lokið fyrr en líður á síðari hluta þessarar aldar. Við það verður alls ekki unað enda býður sá hægagangur sem verið hefur í uppbyggingunni heim hættu á mannskæðum slysum í þéttbýli,“ segir stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga sem einnig skorar á ríkisstjórn Íslands að ljúka uppbyggingu ofanflóðavarna sem fyrst og setja sér metnaðarfull markmið í þeim efnum.