Bæjarstjórn Fjarðabyggðar mótmælir lokun Húsasmiðjunnar á Reyðarfirði
Bæjarstjórn Fjarðabyggðar mótmælir ákvörðun Húsasmiðjunnar um lokun verslunar á Reyðarfirði harðlega, en málið var tekið fyrir á fundi bæjarstjórnar í gær.Eftirfarandi bókun var lögð fram á 256. fundi bæjarstjórnar Fjarðabyggðar í gær.
„Bæjarstjórn Fjarðabyggðar mótmælir harðlega þeirri ákvörðun Húsasmiðjunnar að loka verslun sinni á Reyðarfirði. Það skýtur skökku við að fyrirtæki eins og Húsasmiðjan sjái sér ekki fært að reka verslun í sveitarfélagi eins og Fjarðabyggð þar sem langstærsti hluti veltu fyrirtækja á Austurlandi verður til. Eru þetta sérstök vonbrigði í ljósi fundar sem haldinn var að undirlagi Fjarðabyggðar með stjórnendum Húsasmiðjunnar í lok ágúst síðastliðnum þar sem kom fram að ekki stæði til að loka versluninni á Reyðarfirði heldur reyna að sækja frekar fram í rekstri hennar.
Sú mikla þjónustuskerðing sem nú fer fram, í boði stórfyrirtækja á landsvísu, og virðist helst beinast að landsbyggðinni er með öllu ólíðandi og hvetur bæjarstjórn Fjarðabyggðar stofnanir sveitarfélagsins og íbúa alla að beina viðskiptum sínum til fyrirtækja sem hér starfrækja þjónustu í sveitarfélaginu.“