„Bera er sæt, seiðandi og sjóðheit“

„Ég hef alltaf verið hrifinn af sterkum mat og þykja „hot-sósur“ skemmtileg leið til að njóta þess,“ segir Djúpavogsbúinn William Óðinn Lefever sem stefnir að því að setja á markað fyrstu íslensku hot-sósuna (hot-sauce) og nefnist hún Bera.


Óðinn segir hugmyndina hafa kviknað þegar hann og kona hans, Greta Mjöll Samúelsdóttir, bjuggu út í Boston. „Þar komust við fyrst almennilega í kynni við þessar sósur. Þó svo við hefðum lengi notað hot-sósur sjálf, áttuðum við okkur ekki á því að úrvalið væri endalaust. Ég féll því kylliflatur fyrir úrvalinu í Bandaríkjunum en vissi að sama skapi að það yrði fátt um fína drætti þegar við flyttum aftur heim,“ segir Óðinn, sem þau gerðu árið 2012.

Einföld matargerð
„Við kynntumst stelpum í Boston sem voru miklir matar-grúskarar og bjuggu meðal annars til sínar eigin heitu sósur. Ég sá að um einfalda matargerð er að ræða og áttaði mig á því að ég gæti bara gert þetta sjálfur þegar við færum aftur til Íslands. Á þeim tímapunkti var ég alls ekki að hugsa um framleiðslu, aðeins fyrir okkur. Ég hef svo verið að leika mér við þetta síðan, mér þykir gaman að fikta með allskonar hráefni og sjá hver útkoman verður.“

Fékk styrk úr Uppbyggingarsjóði Austurlands
Óðinn segir að á þeim sex árum sem liðin séu frá því þau Greta Mjöll fluttu aftur til Íslands hafi framboðið af hot-sósum lítið aukist en eftirspurnin hafi hins vegar gert það.

Eftir nokkra umhugsun hafi hann sótt um styrk í Uppbyggingarsjóð Austurlands til þess að þróa og fullvinna sósu. Hann fékk styrkinn og þá var ekki aftur snúið.

„Það er chili-uppsveifla á Íslandi. Það er ekki langt síðan að smekkur landsmanna fyrir þessu hnossgæti var takmarkaður svo vægt sé til orða tekið. Í dag eru breyttir tímar. Áhugi landsmanna fyrir því sterka er að springa út og við fáum hreinlega ekki nóg.

Bera er sæt, seiðandi og sjóðheit, en hún hefur verið þróuð í framleiðslueldhúsinu á Karlsstöðum í Berufirði. Nafnið á henni og hönnunin á flöskunni er óður til svæðisins, enda hefði þetta ekki verið gerlegt fyrir mig annarsstaðar á landinu. Þannig að, sex árum og ótal tilraunauppskrifum síðar er draumurinn vondandi að verða að veruleika,“ segir Óðinn, en hann er að safna fyrir verkefninu á Karolinafund.

46979519 211977036366720 5831874338751512576 n

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.