Bergey með fullfermi eftir brælutúr

Ísfisktogarinn Bergey VE lagðist að bryggju í Vestmannaeyjum í morgun með fullfermi og var uppistaða aflans ufsi. Jón Valgeirsson skipstjóri segir að túrinn hafi einkennst af brælu.

„Það gekk vel að veiða ef tekið er tillit til þess að við vorum á sífelldum flótta undan veðri,“ segir Jón í samtali á vefsíðu Síldarvinnslunnar.

„Við byrjuðum í Sláturhúsinu og síðan færðum við okkur vestur á Öræfagrunn, Kötlugrunn og loks í Reynisdýpið. Það var ekkert hægt að kvarta undan aflanum en veðrið hefði mátt vera miklu betra. Aflanum verður landað í dag og veðurútlit mun síðan hafa mikið að segja um framhaldið,“ segir Jón.

 Á vefsíðunni kemur einnig fram að systurskipið Vestmannaey VE hefur verið að karfaveiðum fyrir sunnan og vestan Eyjar. Afli hefur verið ágætur á daginn en lélegur yfir nóttina. Gert er ráð fyrir að skipið fylli í kvöld og landi í Eyjum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.