Berufjarðarbotn: Vegagerðin bíður ákvörðunar ráðherranna

Vegurinn um Berufjarðarbotn er enn á lista yfir fyrirhuguð útboð í nýjasta hefti Framkvæmdafrétta Vegagerðarinnar. Talsmaður Vegagerðarinnar segir þann lista ekki hafa neina sérstaka stöðu sem stendur.


Vegagerðin gefur út Framkvæmdafréttir sínar mánaðarlega. Í þeim eru birtir listar yfir fyrirhugð útboð Vegagerðarinnar og nýafstaðin.

Athygli vekur að vegurinn um Berufjarðarbotn er á lista yfir fyrirhuguð útboð í blaðinu sem kom út í vikunni, líkt og vegurinn hefur verið í fyrri tveimur tölublöðum þessa árs – og reyndar töluvert lengur.

Samgönguráðherra lýsti því yfir í byrjun mánaðarins að ekki yrði farið í veginn þar sem ekki væri nægt fjármagn á fjárlögum til að fylgja eftir samgönguáætlun.

Honum og fjármálaráðherra var síðan falið að fara betur yfir málin. G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar segir í svari við fyrirspurn Austurfréttar að vera vegarins á listanum yfir fyrirhuguð útboð hafi enga sérstaka merkingu. Beðið sé ákvörðunar ráðherranna.

„Þar sem ekki er komin niðurstaða í það, breytum við ekki þessu, ekki fyrr en við vitum alveg fyrir víst niðurstöðuna í ár.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar