Bláa skipið gleypti dýpkunarskipið
„Það var dálítið mögnuð sjón að sjá bláa skipið, Rolldock Sun, bókstaflega gleypa dýpkunarskipið Galilei 2000 inn í sig,“ segir Gunnar Th. Gunnarsson á Reyðarfirði, en hann náði skemmtilegum myndum á Reyðarfirði í gær sem hann gaf Austurfrétt leyfi til að birta.
Jóhann Bogason er framkvæmdastjóri Gáru ehf., sem er umboðsaðili beggja skipanna.
„Dýpkunarskipið Galilei 2000, sem að hefur unnið við dýpkanir í Landeyjarhöfn síðastliðin þrjú ár, var á leið úr landi en komst ekki lengra vegna veðurs. Þetta skip, Rolldock Sun statt á Íslandi og ákveðið var að það færi og tæki skipið. Dýpkunarskipinu var því siglt inn í Rolldock Sun og farið með það til hafnar hér á Reyðarfirði,“ segir Jóhann.
Galilei 2000 er á leið til Kanaríeyja í slipp og verður þar afhentur nýjum eigendum. Rolldock Sun er nú við bryggju á Reyðarfirði þar sem menn frá Launafl vinna að sjóbúnaði skipsins. Rolldock Sun mun sigla með Galilei til Kanaríeyja og stefnt er að því að skipin haldi utan á föstudag.
Ljósmyndir: Gunnar Th. Gunnarsson