Blíðan á Austurlandi er búin í bili
Eftir nokkuð langt tímabil með einmuna veðurblíðu á Austurlandi stefnir nú í hefðbundið íslenskt síðsumarsveður með eins stafs hitatölum og frekar hryssingslegu veðri. Dagurinn í dag verður skaplegur en síðan breytist staðan til hins verra.
Á vefsíðu Veðurstofunnar má sjá að á hádegi á morgun verður hitinn á bilinu 3 til 8 stig á Austurlandi og þungskýjað veður.
Sjálf veðurspáin fyrir landið í heild hljóðar upp á norðaustanátt fyrir næstu daga. Á miðvikudag verður norðaustan 5-10 m/s, en heldur hægari norðaustanlands. Dálítil rigning suðvestantil, annars bjart með köflum. Hiti 6 til 13 stig að deginum, hlýjast vestanlands.
Á fimmtudag:
Norðaustan 8-15 m/s hvassast við suðausturströndina, en hægari N-lands. Skýjað eða skýjað með köflum. Hiti frá 5 stigum í innsveitum norðaustanlands upp í 16 stig á Suðurvesturlandi.
Á föstudag:
Norðaustan 8-13 m/s og skýjað uim landið A-vert og jafnvel dálítil væta austast, en annars víða bjartviðri. Hiti breytist lítið.