Bólusetningu barna við mislingum flýtt á Vopnafirði

Ákveðið hefur að flýta bólusetningu barna gegn mislingum á Vopnafirði í kjölfar þess að smit greindist á Norðausturlandi á föstudagskvöld. Fleiri tilfelli hafa ekki greinst enn.

Staðfest var á laugardagskvöld að einstaklingur á Þórshöfn hafði greinst með mislinga. Sá hafði meðal annars sótt fjölmenningarhátíð sem haldin var á Vopnafirði sunnudaginn fyrir viku, 14. apríl.

Fylgst er náið með stöðunni þar sem einstaklingar verða ekki veikir fyrr en um viku eftir að þeir eru útsettir fyrir smiti og meðgöngutími veikinnar getur verið allt að þrjár vikur. Hún er lúmsk því fullfrískir einstaklingar geta smitað í fjóra daga áður en þeir veikjast.

Pétur Heimsson, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands, segir að enn hafi ekki greinst fleiri tilfelli. Tvö sýni hafi verið tekin en bæði reynst neikvæð.

Bólusetja börn á Vopnafirði í dag


Ákveðið hefur verið að flýta bólusetningu barna á Vopnafirði vegna veikindanna. Vanalega er fyrst bólusett við mislingum við 18 mánaða aldur og aftur við 12 ára aldur. Heimild er til að bólusetja fyrr þegar smit kemur upp í samfélagi því ung börn eru viðkvæmari en aðrir einstaklingar fyrir mislingum.

Þess vegna býðst börnum allt að sex mánaða gömlum bólusetning. Hægt er að gefa seinni bólusetninguna niður í allt að fjórum vikum eftir þá fyrri. Þetta var skipulagt um helgina og haft samband við foreldra. Byrjað verður að bólusetja um hádegi.

Í tilkynningu frá Vopnafjarðarskóla í morgun segir að ekki hafi verið talin ástæða til að setja takmarkanir á skólahald. Hins vegar eiga börn sem kenna sér einhverra veikinda ekki að fara í skólann heldur skal hringt í síma 1700 eftir leiðbeiningum hjúkrunarfólks.

Samfélagið almennt vel varið


Almennar bólusetningar gegn mislingum hófust hérlendis árið 1976. Að sama skapi er gert ráð fyrir að einstaklingar fæddir fyrir 1970 hafi fengið sjúkdóminn og þurfi því ekki frekari varna við. „Ef fólk er fullbólusett eða hefur fengið mislinga þá er það talin mjög góð vörn,“ segir Pétur.

Mislingar greindust síðast á Austurlandi árið 2019. Þá var boðið upp á bólusetningu sem mjög margir einstaklingar nýttu sér. En þótt staðan eigi að vera þokkaleg þá eru íbúar hvattir til að sýna aðgát, einkum þeir sem ekki hafa fullnægjandi varnir eða aðrar slíkar ástæður. Mikið samráð er í gangi milli heilbrigðisstofnana en engar frekari takmarkanir í gildi að sinni.

Nánari upplýsingar um mislinga, einkenni og viðbrögð eru að finna á vef HSA.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar