Breiðdælingar fá loks sparkvöll í þorpið

Á allra næstu vikum má gera ráð fyrir að íbúar Breiðdalsvíkur verði varir við lítils háttar framkvæmdir í austurhluta þorpsins. Þar verður um að ræða fyrsta skrefið í gerð sparkvallar fyrir þorpið.

Það sannarlega tímamót enda hvorki knattspyrnuvöllur né sparkvöllur á svæðinu og reyndar vandfundinn nægilega sléttur staður í eða við þorpið þar sem börn, ungmenni eða aðrir geta leikið sér í boltaleikjum svo vel sé.

Það er Ungmennafélagið Hrafnkell Freysgoði sem stendur að uppbyggingu sparkvallarins en einhverra hluta vegna fékk Breiðdalsvík engan slíkan sparkvöll í sérstöku átaki Knattspyrnusambands Íslands í uppbyggingu slíkra valla sem víðast í landinu á sínum tíma.

Ungmennafélagið þarf því að standa sjálft að þessari uppbyggingu en Helga Rakel Arnardóttir, einn forsprakka verkefnisins, segir að fyrirtæki á Breiðdalsvík hafi staðið þétt við bak félagsins við að koma þessu á koppinn.

„Það var búið að deiliskipuleggja svæðið þarna og það búið að stika út fyrir vellinum þannig að vonandi verður hægt að byrja á þessu í næstu eða þarnæstu viku. Við erum til dæmis að nýta okkur gamla gervigrasið frá vellinum í Neskaupstað og fáum þá búta úr því sem líta hvað best út til að leggja á okkar völl. Við gerum þetta ein og í sjálfboðavinnu ef frá er talinn stuðningur fyrirtækjanna hér. Við eigum þó eftir að fara í meiri vinnu til að afla styrkja og fjármagns svo það er ekki útilokað að aðrir aðilar hjálpi okkur þegar þar að kemur.“

Helga Rakel segir verklok óviss að svo stöddu. Það velti á verktökunum en ekki síður hversu vel gangi að greiða sérstakan púða sem þarf að vera undir vellinum. Sjálf er hún þó bjartsýn á að völlurinn verði tilbúinn að mestu eða öllu leyti með haustinu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar