Breiðdalsvík: Reynum að finna góða lausn

Oddviti Breiðdalshrepps segir að óvissa sé aldrei góð en ekki dugi að leggja árar í bát. Óvissa er uppi í atvinnumálum byggðarlagsins eftir að fiskvinnslan Ísfiskur sagði upp samningum við Byggðastofnun um sértækan byggðakvóta.


„Það er sjálfgefið að maður hefur áhyggjur af framhaldinu þegar óvissa ríkir. Við gefumst ekki upp og reynum að leita góðra lausna í samvinnu við þá aðila sem verið hafa í þessu eða einhverja aðra,“ segir Hákon Hansson, oddviti Breiðdalshrepps.

Fyrirtækið Ísfiskur, sem opnaði fiskvinnslu á staðnum í byrjun árs 2015, hefur sagt upp samningum við Byggðastofnun um nýtingu 400 tonna sértæks byggðakvóta sem stofnunin úthlutar á Breiðdalsvík.

Vinnslan hefur haft samstarf við útgerðaraðila á staðnum um landanir og verð. Tíu starfsmönnum vinnslunnar var sagt upp í lok maí. Svipaður háttur hefur verið á síðustu tvö ár og hafa starfsmenn nýtt sumrin til starfa í ferðaþjónustu. Óvissan um framhaldið er meiri nú en áður.

Í samtali við RÚV sagði framkvæmdastjóri Ísfisks að sveiflur á fiskverði, gengi krónunnar og launahækkanir væru ástæða aðgerðanna.

Samningarnir við Ísfisk voru til þriggja ára og tekur uppsögnin gildi í lok þessa fiskveiðiárs en nýtt fiskveiðiár hefst 1. september. Hákon bindur vonir við að fyrir þann tíma verði búið að auglýsa kvótann og lausn komin.

„Það verður að koma í ljós hvort einhver vill sækja um kvótann. Ég vona bara að við finnum góða lausn.“

Sveitarstjórn er ekki beinn aðili að málinu þar sem Byggðastofnun semur við útgerðir og fiskvinnslu. Hreppsnefnd hefur hins vegar fylgst með þróun mála hjá Ísfiski undanfarna mánuði.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.