Breytingar gerðar á Fellaskóla
Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings hefur samþykkt að hafist verði handa við tilteknar breytingar á Fellaskóla í Fellabæ en starfsfólk skólans hefur lengi kvartað yfir þrengslum og plássleysi.
Sérstakur starfshópur var skipaður í byrjun mars sem skyldi skoða, greina og koma með tillögur um lausn á húsnæðismálum skólans þar til hann verður stækkaður á tímabilinu 2030 til 2032 samkvæmt framkvæmdaáætlun sveitarfélagsins.
Starfshópurinn skilaði af sér nokkrum mismunandi tillögum en fjölskylduráð og síðar umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkti tiltekna tillögu hópsins í síðasta mánuði.
Sú gengur út á að heimilisfræðistofa skólans verði endurnýjuð og stækkuð frá því sem nú er, framleiðslueldhús skólans skal fært innar í bygginguna auk þess sem bæta skal loftræstingu í tónmenntastofunni. Var framkvæmda- og umhverfisstjóra Múlaþings í kjölfarið falið að koma breytingunum í framkvæmd.
Í tillögu starfshópsins var jafnframt hvatt til þess að sveitarfélagið færði stækkun skólans framar í framkvæmdaröðina en nú er eða að minnsta kosti yrði staðinn vörður um að þær framkvæmdir færðust ekki lengur fram í tímann en fjárfestingaráætlun gerir ráð fyrir.