Búið að steypa upp nýbyggingu Múlans á Neskaupstað
Búið er að steypa upp nýbygginguna við Múlann á Neskaupstað. Nýbyggingin er hluti af framkvæmdum við að breyta gömlu kjörbúðinni Nesbakka í skrifstofuhúsnæði undir nafninu Múlinn.Það er Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað (SÚN) sem stendur að þessum framkvæmdum.
Geir Sigurpáll Hlöðversson verkefnastjóri við byggingu Múlans segir að nú sé verið að vinna að því að gera nýbygginguna fokhelda auk fleiri verka. „Þetta hefur gengið nokkuð vel hjá okkur í sumar þrátt fyrir að mannahald hafi verið erfitt,“ segir Geir Sigurpáll.
Fram kemur í máli hans að á stundum hafi þeir lent í vandræðum vegna þess hve erfitt hefur verið að fá iðnaðar-og verkamenn til starfa.
„Það er greinilegt að iðnaðar- og verkamenn hér Austanlands hafa haft nóg að gera í sumar,“ segir Geir Sigurpáll. „Þetta hefur þó ekki komið að ráði niður á verkhraðanum og eins og staðan er munum við klára verkið um áramótin eins og stefnt var að.“