Christoph Merschbrock ráðinn verkefnastjóri Háskólaseturs Austfjarða

Gengið hefur verið frá ráðningu Christoph Merschbrock sem verkefnastjóra Háskólaseturs Austfjarða. Christoph kemur til starfa 1. ágúst næstkomandi.

Christoph er fæddur í Þýskalandi og lauk Dipl.-Ing. í byggingartæknifræði frá Hochschule Ostwestfalen-Lippe þar í landi og meistaragráðu í byggingaverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Auk þess hefur hann lokið doktorsgráðu í upplýsingakerfum frá Háskólanum í Agder í Noregi.

Christoph er lektor hjá Háskólanum í Jönköping í Svíþjóð en þar áður var hann lektor hjá Oslo and Akershus University College. Christoph hefur starfað sem tæknimaður og verkefnastjóri hjá Ístaki á árunum 2005-2010.

Auk þess að hafa reynslu frá háskólaumhverfinu í Noregi og Svíþjóð þá hefur hann stundað nám á Íslandi og í Þýskalandi. Samhliða starfi sínu sem verkefnastjóri Háskólaseturs Austfjarða mun Christoph sinna rannsóknarstörfum og kennslu við Jönköping háskólann í Svíþjóð.

Eiginkona hans er Norðfirðingurinn Svala Skúladóttir.

Samkvæmt auglýsingu er verkefnastjóranum ætlað að greina þörf á háskólasetri á Austurlandi og leiða mótun framtíðarsýnar fyrir svæðisbundna háskólamenntun. Verkefnastjórinn annast einnig einnig daglegan rekstur á verkefnum vegna uppbyggingar háskólasetursins.

„Christoph hefur mjög góða menntun sem nýtist einkar vel í starfinu ásamt því að hafa þekkingu og reynslu af evrópsku háskólaumhverfi.

Þá er reynsla og þekking hans af kennslu, fræði- og rannsóknarstörfum mikilvæg verkefninu ásamt þeirri reynslu sem Christoph hefur af verkefnastjórnun. Fyrir hönd stýrihópsins bíð ég Christoph hjartanlega velkominn til starfa við að koma háskólasetri Austfirðinga á fót,“ segir Páll Björgin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar í tilkynningu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar