Dæmdur fyrir að skalla og hóta fyrrverandi kærustu

Héraðsdómur Austurlands hefur dæmt karlmann á fertugsaldri í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að ráðast á hana og hóta bæði henni og fleirum sem stóðu henni nærri alvarlegum líkamsmeiðingum.

Sambandi þeirra lauk á árinu 2014. Það vor skallaði maðurinn konuna í andlitið þannig að tönn brotnaði í efri gómi.

Í byrjun árs 2015 sendi maðurinn konunni og öðrum aðila hótanir í gegnum Facebook um grófar líkamsmeiðingar bæði gagnvart þeim og örðum sem stóðu þeim nærri. Kæra var lögð fram í málinu hálfu ári síðar.

Ákæra var ekki lögð fram í málinu fyrr en fyrr á þessu ári. Maðurinn játaði brot sín skýlaust, lýsti yfir iðrun og sagðist hafa gengist undir áfengismeðferð og flutt á brott til að forðast samskipti við konuna.

Það var metið honum til refsimildunar, sem og að meira en þrjú ár voru liðin frá fyrsta broti að ákæru og að maðurinn hafði hreinan sakaferil. Brotin þóttu hins vegar ruddaleg og gegn mikilvægum hagsmunum líkama og friðhelgi brotaþola.

Maðurinn var dæmdur til að greiða konunni 307 þúsund í skaðabætur. Kröfu hennar vegna tannviðgerða var vísað frá þar engin viðgerð hafði enn farið fram, einungis sýnt fram á áætlaðan kostnað. Upphafleg bótakrafa hennar voru 770 þúsund.

Hinum brotaþolanum voru dæmdar 50 þúsund krónur í bætur. Hann hafði farið fram á 950 þúsund en lækkað það í 400 við meðferð málsins.

Maðurinn var að auki dæmdur til að greiða hvoru 120 þúsund í málskostnað og 405 í sakarkostnað.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.