Dásamlegt að geta opnað skólann aftur

Grunn- og leikskólarnir á Reyðarfirði opnuðu aftur í morgun eftir að hafa verið lokaðir í viku eftir að Covid-smit kom þar upp. Enn er hópur starfsmanna í sóttkví þannig meta þarf frá degi til dags hvort hægt sé að halda öllum leikskólanum opnum.

„Það er dásamlegt að hafa getað opnað skólann aftur og geta opnað hann allan. Við áttum ekki von á því,“ segir Lísa Lotta Björnsdóttir, skólastjóri leikskólans Lyngholts.

Í tilkynningu frá í gærkvöldi var varað við því að næstu daga gæti þurft að loka stökum deildum. Af þrjátíu manna starfshópi eru sex sem ekki komast vegna sóttvarnaráðstafana. „Við tökum stöðuna á hverjum morgni því það er mikið af fólki í sóttkví og einangrun,“ útskýrir Lísa Lotta.

Biðlað var til þeirra foreldra sem gátu haft börn sín heima að gera það. „Við eigum að vera með 83 börn og í dag eru 30 sem komu ekki. Það urðu einhverjir við því að hafa börnin heima því annars hefðum við ekki getað opnað allan skólann. Þetta er frábær foreldrahópur sem við höfum.“

Lísa Lotta viðurkennir að undanfarin vika hafi tekið á en vel hafi gengist að komast í gegnum hana. Starfsfólks Lyngholts hefur reynslu því fyrir tveimur árum þurfti að loka þar deildum vegna mislinga.

„Þetta er ekki skemmtileg staða, hvort sem loka þarf deild eða öllum skólanum. Á meðan þessu varir er maður allan sólarhringinn í vinnunni auk þess að vera með hugann við börn og starfsfólk sem berjast við veikindi.

Við lifðum í voninni um að sleppa en þetta er ákveðin reynsla og við bjuggum af því sem við lærðum fyrir tveimur árum. Samskiptin við HSA og aðgerðastjórnina gengu vel og það var góð ákvörðun að loka skólanum til að hindra frekari útbreiðslu.“

Austurfrétt hefur rætt við starfsfólk skóla og foreldra sem lýstu við upphaf skólaársins áhyggjum yfir að þurfa jafnvel reglulega að fara í sóttkví þegar upp kæmu smit í skólum.

„Fólk hefur varann á sér, við sprittum enn allt og vitum hvar grímurnar eru en það er líka samhugur í hópnum um að við getum tekist á við þetta. Þessi hætta hangir alltaf yfir og því miður held ég að hún sé komin til að vera,“ segir hún.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.