„Draumurinn er að virkja sem flesta“

„Ég er full tilhlökkunar og komandi tímar leggjast alveg afskaplega vel í mig,“ segir Kristín Amalía Atladóttir, sem ráðin hefur verið forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs frá næstu áramótum og tekur við starfinu af Unnari Geir Unnarssyni sem gengt hefur því undanfarin misseri.


Kristín hefur verið búsett á Austurlandi í eitt og hálft ár. „Það var nánast fyrir tilviljun að ég kom hingað og mig langar ekki að fara aftur. Ég var að ljúka við að skrifa doktorsritgerð og var á þannig tímamótum í mínu lífi að mig langaði að komast úr bænum,“ segir Kristín, sem er með BA gráðu í leikhúsfræðum frá University of Glasgow auk þess sem hún stundaði framhaldsnám í kvikmynda- og leikhúsfræðum við Stockholms Universitet. Hún hefur einnig meistaragráðu í félagshagfræði með áherslu á nýsköpunar- og frumkvöðlafræði. Hún hefur lokið doktorsnámi í menningarhagræði en á eftir að verja ritgerð sína.


Sér ríkulega menningu á svæðinu

„Það eru ekki komnar skýrar línur á starfið, en það mótast mikið af þeim sem því sinnir hverju sinni. Það verður gaman að fá að taka þátt í samfélaginu og á þeim stutta tíma sem ég hef verið búsett hér fyrir austan sé ég ríkulega menningu eins og ég skilgreini hana. Á henni vil ég byggja starfið, skoða það sem er í grasrótinni ásamt því að sækja eitthvað út á við.

Draumurinn er sá að virkja sem flesta og gera Menningarmiðstöðina að sjálfsögðum viðkomustað fólks á Héraði í dagsins önn. Ég vil bæði tengjast eldri borgurum og unga fólkinu, en eldra fólkið byggir á þeirri grunnmenningu sem hér er og framtíð ungmenna liggur á skapandi eiginleikum þess að ég held.“

Kristín hefur starfað með leikhópum, komið að framleiðslu kvikmynda og setið í stjórnum ýmissa félaga á menningarsviðinu. Þá hefur hún komið að kennslu við Háskóla Íslands, Háskólann á Bifröst, Kvikmyndaskóla Íslands og Tækniskóla Íslands.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.