Efla skipaflotann fyrir siglingar til Reyðarfjarðar

Hollenska skipafélagið Cargow, sem reglulega siglir til Reyðarfjarðar samkvæmt samningum við Alcoa, hefur tekið ákveðið að endurnýja skipakost sinn með fjórum nýjum flutningaskipum. 

Fyrsta skipið, Frigg W, var afhent í byrjun þessa mánaðar. Þrjú til viðbótar eru væntanleg síðar á árinu Þau eru smíðuð í Taizhou skipasmíðastöðinni í Kína og fjármögnuð af japönskum samstarfsaðilum, að því er fram kemur í tilkynningu.

Félagið er í dag með þrjár siglingaleiðir út frá Rotterdam í Hollandi. Ein siglir til Kristianstad í Noregi, önnur er með allt að sjö viðkomustaði á vesturströnd Noregs og sú þriðja siglir til Reyðarfjarðar með viðkomu í Færeyjum og Hull í Englandi. Áætlað er að félagið flytji um eina milljón tonna af áli á ári fyrir Alcoa.

Fimm skip sjá um siglingarnar en nýju skipin eru mun hagkvæmari og losa til dæmis 40% minna koltvíoxíð á hverja sjómílu.

Nýju skipin eru auk þess búin fleiri tenglum fyrir frystigáma en áður sem er sagt lykilatriði fyrir flutninga á ferskum fiski frá Íslandi og Noregi. „Samkeppnin á þeim mörkuðum er mjög hörð en Cargow er í okkar huga vel sett til að bjóða viðskiptavinum okkar góða þjónustu,“ er haft eftir framkvæmdastjóranum Stefáni H. Stefánssyni.

Skipafélagið var stofnað árið 2012 af Norðmanninum Øyvind Sivertsen og Karli Harðarsyni, sem kenndur er við Thorship. Þá er Bjarni Ármannsson, fyrrum bankastjóri Íslandsbanka, stór hluthafi í félaginu og stjórnarformaður.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.