„Ég hélt hann kæmi ekki til baka aftur“

„Hann var bara búinn að sitja inni hjá okkur í tvær til þrjár mínútur þegar hann datt út,“ segir Reyðfirðingurinn Þórir Stefánsson, sem var annar þeirra sem tilnefndur var skyndihjálparmaður árins 2017 eftir að hann kom bróður sínum til bjargar eftir hjartaáfall.


Þórir og Jón Gestur Hauksson voru tilnefndir skyndihjálparmenn ársins 2017 á 112 deginum sem haldinn var á Reyðarfirði fyrir rúmri viku. Báðir komu þeir manni til bjargar eftir hjartaáfall. Guttormur, bróðir Þóris var nýorðinn sjötugur þegar áfallið dundi yfir.

„Gutti bróðir minn kemur uppeftir til Sigfúsar bróður okkar þar sem ég er staddur. Hann kemur bara inn úr dyrunum, fer úr skónum frammi, klæðir sig úr mittistreyjunni og setur hana í stól. Sest svo í sófann við hliðina á mér. Bróðir okkar spyr hann að einhverju, hann svara og dettur svo og við náðum engu sambandi við hann. Ég byrjaði að slá aðeins í kinnarnar á honum en það bar engan árangur, hann hafði fengið hjartaáfall,“ segir Þórir um daginn örlagaríka. 

Þeir bræður hringdu strax í neyðarlínuna og Þórir fór að hnoða og blása Guttorm. „Ég var í því þar til sjúkrabíllinn kom og læknirinn kom skömmu síðar. Gutti bróðir kom aldrei til meðvitundar meðan við vorum þarna, en afráðið var að flytja hann beint suður. Ósæðin var 90% stífluð í honum og það þurfti að skipta um fimm æðar í það heila, en honum var haldið sofandi í þrjár vikur.“


Hafði farið á skyndihjálparnámskeið
Í dag er Guttormur stálsleginn og farinn að vinna á sinni gröfu á nýjan leik. „Það er alveg mesta furða hvað hann er góður, það eina sem ég finn, að hann er örlítið gleyminn. Ég get sagt þér það að ég hélt að hann kæmi ekki til baka aftur. Ef að hann hefði ekki sloppið inn úr dyrunum þá hefði þetta bara verið búið. Og læknirinn sagði einnig að ef hann hefði ekki verið vel á sig kominn þá hefði hann aldrei lifað þetta af. En núna komst hann ekki einu sinni á 112 daginn sjálfur því hann var upptekinn við að moka snjó fyrir eldri borgara,“ segir Þórir og hlær.

Þórir fór á skyndihjálparnámskeið meðan hann vann hjá Olíudreifingu. „Þeir buðu okkur að fara á námskeið, bæði til þess að kynna okkur þetta og að slökkva elda, þannig að ég kunni ég aðeins í þessu, sem betur fer.“

Þórir segir að sjúkrabíllinn hafi verið mjög fljótur á staðinn. „Hann hefur ekki verið meira en fimm mínútur á leiðinni en það er langur tímur að bíða í slíkum aðstæðum. Við bræður vorum nú hálf sloj eftir þetta, auðvitað verður manni brugðið við svona aðstæður, við vissum ekki hvort hann kæmi lifandi til baka eða hreinlega í kistunni.“

Yrði brjálaður hefði hann ekkert að dunda
Búið er að skipta um hjartaloku í Þóri og segir hann hjartaveilu vera mikið í ættinni. Sjálfur er hann 73 ára og er enn að vinna. „Ég yrði bara brjálaður ef ég hefði ekki eitthvað að dunda,“ segir Þórir, sem nú vinnur hluta að degi hjá Áhaldaleigu Austurlands, en hann hefur unnið þar yfir vetrarmánuðina eftir að hann lét af störfum hjá Olíudreifingu, sjötugur að aldri. „Ég er auðvitað ekkert í þrælavinnu hérna, bara að þrífa tæki og dunda mér eitthvað.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.