„Ég vil hvetja smáframleiðendur til að selja á þessum markaði“

„Aðal hausverkurinn er að fjölga framleiðendum,“ segir segir Guðný Harðardóttir, einn af eigendum Breiðdalsbita og stjórnandi Matarmarkaðs Austurlands-REKO, en fyrsti markaðsdagurinn verður næstkomandi þriðjudag á Fóðurblönduplaninu við hliðina á Bónus á Egilsstöðum.


Markaðurinn er að sænskri fyrirmynd og stendur fyrir vistvæna og heiðarlega viðskiptahætti. Hann er fyrsti sinnar tegundar hérlendis og stofnaði Guðný Facebook-hópinn um miðjan júlí.

Markaðssetning og pantanir fara fram á Facebook-síðunni án nokkurra milliliða. Framleiðendur og kaupendur hittast svo á ákveðnum stað til að afhenda/kaupa vörurnar.

„Þetta er ekki markaður þar sem fólk getur komið og verslað, nema þá fyrirfram pantaðar vörur af síðunni. Við teljum þetta fyrirkomulag framleiðendum til hags sem mætir bara á svæðið með það magn sem búið er að panta hjá honum. Fyrir smáframleiðanda er mikll kosnaður í því að leigja markaðspláss og vera þar með eitthvað magn af vöru sem runnið er blint í sjóinn með hvort selst eða ekki. Við smáframleiðendur verðum að finna leiðir til þess að skila sem mestum hagnaði og því miður er það ekki með flutningi á vörum í verslanir eins og til Reykjavíkur.“

Guðný segir verkefnið fara hægt af stað. „Bændur eru mjög uppteknir og þurfa að sinna mörgum verkefnum. Smáframleiðendur eru mjög breiður hópur af fólki með ólíkar forsendur og framleiðslu og kannski er erfitt að sameina þarfir þeirra. Við verðum að hvetja smáframleiðendur til dáða með að þetta sé vettvangur sem fólk hefur áhuga á.“

„Þetta þurfa ekki að vera fullunnar vörur“
Enn er Breiðdalsbiti eini framleiðandinn sem verður á markaðnum á þriðjudaginn. „Ég vona svo sannarlega að fleiri taki við sér svo ég verði ekki ein að afhenda einhverjar fáeinar vörur. Þetta þurfa alls ekki að vera fullunnar vörur, allt eins frumframleiðendur eins og grænmetisbændur. Ávaxta og grænmetisræktun hefur stóraukist á Austurlandi undanfarin ár. Ég vil hvetja smáframleiðendur til að selja á þessum markaði.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.